Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri er öflug rannsóknastofnun sem vaxið hefur mikið á undanförnum árum. Stofnunin fæst
einkum við rannsóknir á samfélagsmálum í víðum skilningi, byggðamálum, sveitarstjórnarmálum, atvinnumálum,
samgöngumálum, stjórnsýslu, nýsköpunarmálum, mati á umhverfisáhrifum auk framkvæmdar kannana og þjónusturannsókna
af ýmsu tagi. Vegna afleysinga er auglýst eftir sérfræðingi til rannsókna- og ráðgjafarstarfa í fullt starf. Ráðningin er til eins
árs en með möguleika á framlengingu ef verkefnastaða leyfir. Nauðsynlegt er að sá einstaklingur sem ráðinn verður hafi reynslu af
þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og hafi gott vald á erlendum
tungumálun (ensku og/eða skandinavísku). Þá er nauðsynlegt að umsækjendur hafi góð tök á megindlegri aðferðafræði
og reynslu af tölfræðilegum greiningum. Æskileg er reynsla við notkun á SPSS forritinu. Fyrst og fremst er leitað að starfskrafti með meistara- eða
doktorspróf í stjórnmálafræði, félagsfræði, hagfræði eða landfræði, fleiri fræðasvið koma einnig til
greina.
Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) mun standa fyrir fjölþjóðlegri ráðstefnu um byggða- og
svæðaþróunarmál á Akureyri dagana 22.-25. september næstkomandi. Ráðstefnan fer fram á Hótel KEA og í Ketilhúsinu
í Grófargili. Á ráðstefnunni munu yfir 30 þátttakendur, frá sjö þjóðlöndum, flytja erindi eða kynningar á
öðru formi.
Nú fyrir skömmu gerðu þeir Hjalti Jóhannesson og Jón Þorvaldur Heiðarsson, sérfræðingar hjá RHA, víðreist og héldu erindi Fjórðungsþingi Vestfjarða sem haldið var á Patreksfirði. Þar kynntu þeir félagar niðurstöður skýrslu sem unnin var á vegum RHA og sem ber heitið Samanburður vegtenginga á Vestfjörðum - Vestfjarðavegur og Djúpvegur- Samfélagsáhrif og arðsemi.
Í desember síðastliðnum gaf Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) út skýrslu um áhrif sameiningar alls Eyjafjarðar
í eitt sveitarfélag. Það var Stýrihópur um sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð sem fékk RHA til þessa verks.