Staða karla og kvenna á lögbýlum á Íslandi

Út er komin skýrslan ,,Staða karla og kvenna á lögbýlum á Íslandi”.  Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um starfs- og félagslegar aðstæður karla og kvenna búsettum á lögbýlum á Íslandi með það að leiðarljósi hvort tilefni sé til þess og þörf sé á að styrkja sérstaklega stöðu þeirra á ákveðnum svæðum á Íslandi.

Svínavatnsleið - mat á samfélagsáhrifum

Út er komin skýrslan „Svínavatnsleið – mat á samfélagsáhrifum“ sem fjórir sérfræðingar á vegum RHA unnu fyrir fyrirtækið Leið ehf. 

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir nýr forstöðumaður RHA

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og mun taka við af Jóni Inga Benediktssyni, fráfarandi forstöðumanni, á næstu dögum. Guðrún Rósa er með doktorsgráðu frá Göteborgs Universitet og hefur starfað hjá RHA frá árinu 2006. Þar hefur hún m.a. stýrt rannsóknasviði HA, unnið að rannsóknum og úttektum á sviði fjarnáms hérlendis og erlendis og verið framkvæmdastjóri á skrifstofu Rannsóknarþings norðursins.

 


North Hunt, Sustainable Hunting Tourism - business opportunity

RHA, FMSÍ og UST hafa fengið styrk frá Evrópusambandinu vegna þátttöku í verkefni sem er hluti af nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Heildarfjárhæð verkefnisins er 25,3 milljónir sem skiptist niður á þrjú ár.  Fékkst styrkur frá Evrópusambandinu fyrir 50% af heildarfjárhæðinni. Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans Akureyri er yfirumsjónaraðili yfir verkefninu sem ber nafnið ”North Hunt, Sustainable Hunting Tourism - business opportunity” og er samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Skotlands og Kanada (Labrador og Nýfundnaland). Markmið verkefnisins er að styðja við þróun sjálfbærra veiða til eflingar atvinnulífs og búsetu með áherslu á veiðimenningu. Áhersla er á miðlun reynslu og þekkingar á milli þátttakenda og kanna möguleika á sameiginlegri markaðssetningu vörumerkis ”Northern brand” fyrir sjálfbærar veiðar. Að verkefninu koma einnig Ferðamálasetur íslands, Veiðistjórnarsvið Umhverfisstofnunar og fleiri.


Ísland tekur þátt  nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2007-2013. (Northern Periphery Programme - NPP). Þátttökulöndin auk Íslands eru Finnland, Svíþjóð, Skotland, Norður Írland, Írland, Noregur,Grænland og Færeyjar. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að bættu atvinnu- og  efnahagslífi auk eflingar búsetuþátta með fjölþjóða samstarfsverkefnum á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Áhersla er m.a. lögð á að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja séu hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs. Verkefnin innan NPP skapa mikilvæg tengsl og þekkingu sem byggja á alþjóðlegri samvinnu og framtaki. Nánari upplýsingar er að finna hér.

,,Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum – Skoðun á völdum samfélagsþáttum”

RHA hefur unnið skýrsluna ,,Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum – Skoðun á völdum samfélagsþáttum” fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga.  Í skýrslunni er að finna grunnskoðun á vinnumarkaðinum á Vestfjörðum og hversu langt hann er frá Hvestu og Söndum. Einnig er fjallað um samgöngur og mögulegar samgöngubætur, nýtingu húsnæðis, nýtingu grunnskóla og fleira.  Jón Þorvaldur Heiðarsson er aðalhöfundur skýrslunnar en meðhöfundar eru Hjalti Jóhannesson og Kjartan Ólafsson.

Samanburður á byggðastefnu Norðurlandanna

Á vegum stofnunarinnar Nordregio er komin út skýrslan Continuity or Transformation? Perspectives on Rural Development in the Nordic Countries sem fjallar um samanburð á byggðastefnu Norðurlandanna. Hér er um að ræða afrakstur af vinnu sem fram fór í tengslum við málþing um þetta efni hjá Nordregio í Stokkhólmi 10. og 11. október 2006. Sérstök áhersla er á þann þátt byggðastefnu sem varðar eiginlegt dreifbýli. Meðal höfunda skýrslunnar er Hjalti jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA sem skrifaði kafla um Ísland. Skýrslan er aðgengileg hér.

Jólakveðja frá starfsfólki RHA

RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri óskar landsmönnum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.


Skýrsla um lýðfræðilegar breytingar og búferlaflutninga vinnuafls á Norðurlöndum

Á vegum stofnunarinnar Nordregio er komin út skýrsla um lýðfræðilegar breytingar og búferlaflutninga vinnuafls á Norðurlöndunum. Skýrslan er aðgengileg hér á vef RHA. Meðal höfunda skýrslunnar eru Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur við RHA.

Ráðstefna um stöðu og framtíð líftækni á Íslandi 16. nóvember

Ráðstefna um stöðu og framtíð líftækni á Íslandi á vegum Viðskipta- og raunvísindadeildar Háskólans á Akureyri verður haldin föstudaginn 16. nóvember nk. Ráðstefnan fer fram í húsnæði Háskólans á Borgum v/Norðurslóð. 
 
Markmið fundarins er að fá fram upplýsingar um stöðu líftækni á Íslandi með því að kynna starfsemi fyrirtækja og háskóla á þessu sviði og fá fram upplýsingar um störf, stefnu og þörf fyrir þekkingu og starfsfólk á næstu árum. HA mun kynna kennslu og rannsóknir sínar og vonast til að fá umræður og viðbrögð („feedback”) frá þátttakendum varðandi áherslur og stefnu sem HA ætti að hafa á leiðarljósi næstu árin varðandi frekari uppbyggingu á kennslu og rannsóknum á sviði líftækni.

 

Ráðstefnan opin öllum sem áhuga hafa. Skráning á fundinn fer fram hjá Láru Guðmundsdóttur á netfangið laragudmunds@unak.is. Athugið að lokadagur skráningar er mánudaginn 12. nóvember n.k. og að ókeypis aðgangur er á ráðstefnuna. Dagskrá ráðstefnu má finna hér.

Rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunar á Austurlandi, úrtakskönnun vorið 2007

Komin er út skýrsla sem er hluti rannsóknar á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. Hér er um að ræða viðhorfskönnun meðal almennings á landinu öllu sem fram fór vorið 2007. Höfundar skýrslunnar eru Hjalti Jóhannesson og Tryggvi Guðjón Ingason.