Kannanir opinberu háskólanna.
Hluti af viðhorfskönnunum sem fara reglulega fram meðal núverandi og útskrifaðra nemenda við opinberu háskólana.
Reynslan af fjölkjarna sveitarfélögum.
Athugun á reynslunni af rekstri fjölkjarnasveitarfélaga, verkefni unnið fyrir Innviðaráðuneytið. Skoðuð verða fjögur sameinuð sveitarfélög sem eru samansett af fleiri en einum þéttbýliskjarna og í tveimur tilvikum bæði þéttbýli og dreifbýli. Sveitarfélögin hafa orðið til í fleiri en einni sameiningu og hafa náð að þróast yfir langan tíma, þannig að þar hefur mikil reynsla safnast saman. Markmiðið er að athuga hvernig reynsla af hverfisnefndum, hverfisráðum eða heimastjórnum, þar sem slíkt er til staðar, hefur gengið að mati forsvarsmanna sveitarfélaganna og hverfisnefnda. Sveitarfélögin eru innbyrðis ólík.
Úttekt á Matvælasjóði.
Verkefnið felst í úttekt á úthlutunum matvælasjóðs 2020-2024. Úttektin tekur til efnahagslegra- og samfélagslegra áhrifa sjóðsins og úthlutana hans. Jafnframt áhrifa á styrkþegann með tilliti til nýsköpunar og starfsmannafjölda. Úthlutanir verða greindar eftir landshlutum, kyni og úthlutunarflokkum. Verður það gert með greiningu á fyrirliggjandi gögnum um úthlutanir sjóðsins, spurningakönnun meðal styrkþega og viðtölum við styrkþega og aðra haghafa. Verkefni unnið fyrir Matvælaráðuneytið.
Hvalár- og Kollafjarðarlína, mat á áhrifum á ferðaþjónustu og útivist.
Verkefnið felst í að meta áhrif tveggja nýrra flutningslína á ferðaþjónustu og útivist, sem hlutarannsókn fyrir mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin er Hvalárlína 1 milli Miðdals og Hvalárvirkjunar og Miðdalslína 1 milli nýrra mögulegra tengivirkja í Kollafirði í við norðanverðan Breiðafjörð og Miðdal við innanvert Ísafjarðardjúp. Skoðuð verða áhrif mismunandi valkosta línanna.
Inngilding í íslensku háskólasamfélagi.
Opinberu háskólarnir hafa sameinast í verkefni um inngildingu í íslensku háskólasamfélagi. Verkefnið er til tveggja ára og er ætlunin að þróa leiðir til að stuðla að aukinni inngildingu í háskólasamfélaginu, fjölga innflytjendum í háskólanámi og sporna við brottfalli þeirra.
Enhancing labour opportunities for Ukrainian women in rural Nordic communities.
Í verkefninu rannsakar RHA hvernig konum sem flúðu Úkraínu eftir innrás Rússa til Norðurlandanna hefur vegnað á norrænum vinnumarkaði. Rýnihópar verða framkvæmdir og viðtöl tekin við úkraínskar konur og lykilaðila sem vinna með flóttamönnum til að kanna stuðning og hindranir við vinnumarkaðsþáttöku. Einnig verður kannað hvort draga megi lærdóm af upplifun þessa fólks af norrænum vinnumörkuðum til að styðja betur við atvinnuþátttöku annarra flóttamannahópa. Samstarfsverkefni með Dalarna háskóla í Svíþjóð og Inland Norway University of Applied Sciences. Verkefninu lýkur haustið 2026.
Verkefni fyrir verkefnisstjórn fimmta áfanga rammaáætlunar.
Verkefnin tengjast skoðun á áhrifum átta vindorkukosta, fjögurra vatnsorkukosta og eins jarðvarmakosts á nærsamfélög þeirra.
Viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu.
Verkefnið felst í að framkvæma símakönnun fyrir Rannsóknamiðstöð ferðamála (verkkaupi) um viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu á árinu 2023.
Verkefni í þágu Háskólans á Akureyri.
Á hverjum tíma er RHA þátttakandi í ýmsum smærri verkefnum fyrir hönd Háskólans á Akureyri, s.s. á sviði byggðaþróunar og norðurslóðamála. Þá sinnir RHA umsýslu rannsóknasjóða og nefnda á sviði rannsókna fyrir HA.
Þjónusta við starfsmenn Háskólans á Akureyri.
Sérfræðingar RHA sinna reglubundið aðstoð við akademíska starfsmenn Háskólans á Akureyri í tengslum við skipulagningu rannsókna og umsóknir um rannsóknastyrki auk sérfræðiaðstoðar við gagnaöflun og greiningu rannsóknagagna. Þá sinnir RHA aðstoð við framkvæmd og skipulagningu ráðstefna sem haldnar eru innan HA, oftast í samstarfi akademíska starfsmenn háskólans.