Vel heppnuð ráðstefna um Loftslagsbreytingar á norðlægum svæðum
Þann 22.-23. ágúst fór fram í Háskólanum á Akureyri ráðstefnan Loftslagsbreytingar á norðlægum svæðum (Climate Change in Northern Territories. Sharing Experiences, Exploring New Methods and Assessing Socio-Economic Impacts). Ráðstefnan var samvinnuverkefni Evrópuverkefnisins ESPON – ENECON og Rannsóknarþings Norðursins (NRF). Bæði verkefnin eru vistuð við RHA – Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Alls voru flutt 48 erindi um málefni Norðurslóða auk opnunarávarps Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. Ráðstefnuna sóttu alls 110 manns frá 14 löndum. Helmingur þátttakenda eða 57 voru þó Íslendingar, flestir þeirra frá HA og Akureyri. Starfsmenn Háskólans á Akureyri fluttu alls 14 erindi á ráðstefnunni. Það mun vera metfjöldi á framlögum starfsmanna skólans á alþjóðlegri ráðstefnu. Ráðstefnan tókst mjög vel og var hún mikilvægt framlag til umræðu um umhverfismál á norðurslóðum. Erindin voru tekin upp og verða birt innan skamms á heimasíðu ráðstefnunnar.