Út er komin skýrslan Gildi og gagnsemi náms í HA. Um er að ræða skýrslu sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri vann
fyrir Háskólann á Akureyri (HA) en höfundur hennar er Hjördís Sigursteinsdóttir.
Skýrslan greinir frá niðurstöðum viðhorfskönnunar sem framkvæmd var meðal brautskráðra nemenda frá HA á árunum 1989 til
2003. Skýrslunni er ætlað að draga upp heildstæða mynd af viðhorfi nemenda til gildis og gagnsemi náms við HA.
Þetta er í þriðja sinn sem gerð er könnun meðal brautskráðra nemenda við HA auk þess sem gerðar hafa verið þrjár kannanir
meðal nýnema við skólann.
Í skýrslunni kemur margt áhugavert fram en í hnotskurn má segja að brautskráðir nemendur séu almennt ánægðir með
nám sitt við HA og hvernig það hefur nýst þeim til frekara náms og starfa.
Það er ekki annað að sjá af þessum niðurstöðum að HA hafi búið nemendur sína að kostgæfni undir fjölbreytt störf
í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi og ljáð þeim trausta heimanfylgju til
símenntunar og framhaldsnáms á fræðasviðum sínum. Alltaf er þó hægt að gera betur og geta háskólayfirvöld
nýtt sér þær upplýsingar sem fram koma í þessari skýrslu við ákvörðunartöku
og framtíðarskipulag náms í HA.
Hér má nálgast umrædda skýrslu.