RANNSÓKNASJÓÐUR HÁSKÓLANS Á AKUREYRI AUGLÝSIR EFTIR UMSÓKNUM

Rannsóknasjóður Háskólans á Akureyri auglýsir hér með eftir umsóknum.
Umsóknareyðublað og reglur sjóðsins er að finna á heimasíðu RHA hér.

 

Umsækjendur athugi að hafi þeir sótt um styrk í sjóðinn áður og fengið úthlutað þá þarf framvindu- eða lokaskýrsla að liggja fyrir hjá sjóðstjórn áður en hægt er að afgreiða nýja umsókn.

 

Umsóknir þurfa að berast til RHA – Rannsóknasvið, Borgum v/Norðurslóð fyrir kl. 12 mánudaginn 3. des. n.k. Séu umsóknargögn póstlögð þarf póststimpillinn að vera eigi síðar en 3. des.

 

Stjórn sjóðsins vill vekja athygli á því að síðustu ár hefur borið á því að umsóknir hafa ekki verið nægilega vel unnar og því skal athygli vakin á því að Rannsóknaþjónusta RHA veitir aðstoð við gerð umsókna samkvæmt samningi við yfirstjórn Háskólans og er því umsækjendum bent á að hægt er að leita aðstoðar hjá Rannsóknaþjónustunni.


F.h. Rannsóknasjóðs HA
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir
gudrunth@unak.is

Vinnubúðir um sjávarútvegsmálefni

""/Dagana 11. og 12. október s.l. voru haldnar vinnubúðir um sjávarútvegsmálefni á Hótel Kea. Tvö megin þemu voru í vinnubúðunum, sjálfbærar fiskveiðar (Sustainable Fishery) annars vegar og verðmætasköpun og nýsköpun hins vegar (Value Creation and Innovation). Vinnubúðirnar voru samstarfsverkefni Sintef í Noregi og Viðskipta- og raunvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Fyrirlesarar voru frá Danmörku, Noregi og Íslandi og þátttakendur voru um 30 talsins. 

Var þetta í annað sinn sem slíkar vinnubúðir eru haldnar en í fyrra voru þær í Noregi og ákveðið var í lok vinnubúðanna núna að þær skyldu haldnar að ári í Danmörku. 

Sýningin MATUR-INN 2007

Norðlenskum mat og matarmenningu gerð skil á sýningunni MATUR-INN 2007 á Akureyri um komandi helgi


► Um 60 sýnendur
► Úrslitakeppni um titilinn „Matreiðslumaður ársins 2007“
► Frumkvöðlaverðlaun félagsins „Matur úr héraði – Local Food“ veitt
► Markaðstorg, borðbúnaðarsýning, matreiðslukeppni þjóðþekktra einstaklinga,
 keppni í samlokugerð, fræðslustofur (workshop) og margt fleira


Um næstu helgi verður sýningin MATURINN 2007 haldin í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Fyrir henni stendur félagið Matur úr héraði – Local Food og er sýningunni ætlað að endurspegla fjölbreytni í mat og matarmenningu á Norðurlandi. Sýning undir sama nafni var haldin fyrir tveimur árum en sýnendur nú eru nálega helmingi fleiri og dagskrá ennþá fjölbreyttari. Meðal viðburða á sýningunni er úrslitakeppni Klúbbs matreiðslumeistara um titilinn Matreiðslumaður ársins 2007. Sýningin verður opin kl. 11 -17 á laugardag og sunnudag og er aðgangur ókeypis. Formleg opnun verður kl. 14 á laugardag þegar Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsækir sýninguna.

Vinnubúðir um sjávarútvegsmálefni

Dagana 11. og 12. október n.k. mun Háskólinn á Akureyri og SINTEF í Noregi standa fyrir lokuðum vinnubúðum (workshop) fyrir norræna fræðimenn um sjávarútvegsmálefni.

 

Tvö megin þemu verða í vinnubúðunum þ.e. sjálfbærar fiskveiðar (Sustainable Fishery) annars vegar og verðmætasköpun og nýsköpun hins vegar (Value Creation and Innovation). Þátttakendur í vinnubúðunum koma frá Norðurlöndunum og áætlað er að þeir verði um 25-40 talsins. Vinnubúðir sem þessar eru hugsaðar sem vettvangur aðila sem vinna að rannsóknum á sviði sjávarútvegs og hagsmunaaðila þeirra til að efla tengsl og samstarf. Ljóst er að slíkar vinnubúðir eru mikill fengur fyrir þá aðila sem koma að þeim. Slíkt mun styrkja tengslanet íslenskra fræðimanna á þessu sviði og styrkja rannsóknir tengdar sjávarútvegi.

 

Dagskrá ráðstefnu

Vísindavaka Rannís 2007

RHA tók þátt í Vísindavöku Rannís - stefnumóti við vísindamenn í Listasafni Reykjavíkur föstudaginn 28. september. Áhersla var lögð á að sýna þá faglegu breidd sem verkefni RHA spanna.  Voru kynnt 3 veggspjöld í þeim tilgangi og glærukynning sem tengist verkefnum stofnunarinnar.  Að mati þeirra fjögurra starfsmanna sem voru fulltrúar RHA tókst mjög vel til og var þátttaka almennings mikil.