46 verkefni hlutu styrk úr Sprotasjóði 2012

Úthlutað hefur verið úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2012-2013. Alls bárust 190 umsóknir til sjóðsins og fengu 46 verkefni styrk að upphæð 43. millj. kr.

KITCASP: Nýtt rannsóknarverkefni á vegum ESPON

KITCASP: Key Indicators for Territorial Cohesion and Spatial Planning er nýtt rannsóknarverkefni sem RHA tekur þátt í ásamt aðilum frá fjórum evrópskum háskólum. Verður þetta verkefni unnið á árunum 2012-2013.

Ráðstefna um ESPON byggðarannsóknir

Þann 12. október síðastliðinn stóð Byggðastofnun fyrir ráðstefnu um ESPON-byggðarannsóknir en aðilar að þeim eru ESB og EFTA löndin. Ísland hóf þó þátttöku sína síðar en önnur EFTA lönd eða í upphafi árs 2008. RHA er sú íslenska rannsóknastofnun sem hefur mesta reynslu af þátttöku í slíkum rannsóknum og má þar nefna þátttöku okkar í Territorial Impacts of European Fisheries Policy, SeGI og NORBA. Hjalti Jóhannesson var meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni og sagði hann frá reynslu RHA af þátttöku í þessu rannsóknastarfi. Sjá nánar um ráðstefnuna og erindi sem þar voru flutt á heimasíðu Byggðastofnunar.

Nýtt verkefni um stöðu umhverfismála

RHA hefur tekið að sér verkefni sem varðar mat á stöðu umhverfismála á svæðinu við Krossanes á Akureyri. Miðað er við að lýsa stöðu umhverfismála um það leyti sem Becromal verksmiðjan er að hefja starfsemi sína á svæðinu og á fyrstu rekstrar­árum hennar eða tímabilið 2009-2012.

Umsóknir í Sprotasjóð 2012-2013

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Sprotasjóð á vefslóðinni http://www.sprotasjodur.is/  
Hægt er að sækja um í sjóðinn frá 1.- 29. febrúar.

Forstöðumannaskipti á RHA

Hjalti Jóhannesson tekur nú um áramótin við starfi forstöðumanns RHA í fjarveru Guðrúnar Rósu Þórsteinsdóttur. Var henni veitt launalaust leyfi frá störfum á árinu 2012 og mun á þeim tíma verða búsett á Nýja Sjálandi. Embla Eir Oddsdóttir mun hins vegar taka við verkefnum Guðrúnar á vettvangi Northern Research Forum.

Megaproject planning in the Circumpolar North

RHA var ásamt rannsóknastofnuninni Ecologic í Berlín að ljúka verkefni um stórframkvæmdir (e. megaprojects) á norðurslóðum "Megaproject planning in the Circumpolar North - broadening the horizon, gaining insight, empowering local stakeholders". Gerður var samanburður á nokkrum þáttum tveggja slíkra framkvæmda. Annars vegar var um að ræða stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi sem RHA hefur rannsakað á undanförnum árum og hins vegar vinnslu á olíusöndunum í Alberta, Kanada. Verkefnið var styrkt af sjóð Norrænu ráðherranefndarinnar "Arctic Cooperation Fund". Heimasíða verkefnisins er vistuð hjá Arctic Portal á Akureyri og þar er einnig að finna lokaskýrslu verkefnisins, samantektarskýrslu á ensku um samfélagsáhrif stórframkvæmdanna á Austurlandi og fleira.

Samfélagshlutverk háskóla

Í gær var send út netkönnun til akademískra starfsmanna háskólanna og sérfræðinga við rannsóknir. Könnunin er liður í rannsókn á samfélagslegu hlutverki háskóla sem er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands en í kjölfar auglýsingar samþykkti Rannsóknarstofa um háskóla að fela Rannsókna- og þróunarmiðstöð HA og Miðstöð skóla­þróunar HA að annast rannsóknina. Myndað var rannsóknarteymi sjö manns og áhersla lögð á að bakgrunnur þátt­takenda væri sem fjölbreyttastur.

Vinna í fullum gangi við EU-NET ADB

Um þessar mundir er verið að afla samþykkis þátttakenda og foreldra til að taka þátt í viðamikilli könnun um net-ávana. Til stendur að ná til um 2.000 barna í 9. og 10. bekk grunnskólanna. Þegar er byrjað að leggja könnunina fyrir og fyrstu listar komnir í hús. Verkefnið sem kallast EU-NET ADB er fjármagnað af Evrópusambandinu, svokölluðu "Safer Internet Programme" og í því taka þátt 8 háskólar og stofnanir í 7 löndum Evrópu.

RHA tekur þátt í Vísindavöku Rannís

Vísindavaka 2011 var haldin í Háskólabíói föstudaginn 23. september s.l.

Þetta árið var RHA við með kynningu á samevrópsku verkefni sem RHA er þátttakandi í. Þar er rannsökuð netnotkun og hugsanlegur netávani 15-16 ára unglinga. RHA sér um íslenska hluta rannsóknarinnar og mun nú í haust leggja könnun fyrir 2.000 unglinga í 9. og 10. bekk nokkurra grunnskóla. Forkönnun var gerð síðastliðið vor á nokkur hundruð unglingum og voru niðurstöður úr þeirri könnun m.a. kynntar ásamt því að kynna verkefnið í heild sinni.