Lokaráðstefna í verkefninu REKENE og útkoma lokaskýrslu

Nú er komin út lokaskýrsla í norræna rannsóknarverkefninu REKENE sem RHA hefur tekið þátt í ásamt Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE) frá haustmánuðum 2007. Verkefnið fjallar um það hvernig þekking verður til, er miðlað og hagnýtt í efnahagslegu tilliti á nokkrum landsvæðum á Norðurlöndunum. Lokaráðstefna verkefnisins verður haldin hjá Nordregio í Stokkhólmi 24.-25. ágúst næstkomandi.

RHA kemur að undibúningsvinnu vegna álvers í Maniitsoq

RHA hefur komið að undibúningsvinnu álvers í Maniitsoq á vesturströnd Grænlands með því að gera aðgengilegar upplýsingar úr rannsókn á samfélagsáhrifum stórframkvæmdanna á Austurlandi. Er hér um dæmi að ræða hverning þær upplýsingar sem þar hefur verið safnað eru að nýtast. Aðstæður eru á margan hátt mismunandi en ljóst er að ýmsa reynslu má yfirfæra milli þessara tveggja staða. Hér má sjá heimasíðu grænlenska verkefnisins og hér er að finna skýrslu RHA frá júní 2010.

Samfélagsáhrif álvers við Húsavík

RHA kom að undirbúningi umhverfismats álvers á Bakka við Húsavík sem var í kynningarferli í upphafi sumars. Hér má finna heimasíðu verkefnisins og hér er sérfræðiskýrsla RHA um samfélagsáhrif álversins. Smávægileg uppfærsla upplýsinga verður í endanlegri matsskýrslu miðað við sérfræðiskýrslu RHA að loknum athugasemdafresti enda var henni lokið í ársbyrjun 2009.

Skýrsla um samfélagsáhrif vegar um Dynjandisheiði

Út er komin skýrsla um samfélagsáhrif vegar um Dynjandisheiði sem var unnin að beiðni Vegagerðarinnar. Fram kemur að nokkur svið samfélagsins geta orðið fyrir áhrifum enda skapast miklir möguleikar á auknum samskiptum þegar heilsárssamgöngur komast á milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Skýrsluna má nálgast hér.

RHA meðal styrkþega Háskólasjóðs KEA

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhentu 5,3 milljónir króna úr Háskólasjóði KEA við athöfn sem fram fór á Sólborg, húsnæði Háskólans á Akureyri við Norðurslóð 12. júní.

Þetta er í áttunda sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði KEA. Samkvæmt samkomulagi sem KEA og Háskólinn á Akureyri gerðu með sér eru veittir námsstyrkir, styrkir til rannsókna, búnaðarkaupa og sérverkefna. Einnig eru veitt verðlaun vegna námsárangurs til nemenda á hug- og félagsvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði og viðskipta- og raunvísindasviði.

Við úthlutun er almennt horft til verkefna sem eru viðbót við samþykkta starfsemi HA og/eða samstarfsstofnana, þar sem verkefni fela í sér ný eða aukin tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk og eru til þess fallin að efla byggð og tengingu við atvinnulíf, menningu eða náttúrufar félagssvæðisins.

Úthlutun námsstyrkja og verðlaun vegna námsárangurs voru samtals 7 og til úthlutunar voru rúmlega 1,1 milljón króna.

Umsóknir í flokki rannsókna, til búnaðarkaupa og sérverkefna voru 29 talsins og upphæðin sem sótt var um rúmar 23 milljónir. Tólf styrkir voru veittir en alls komu rúmar 4,2 milljónir til úthlutunar.

Tímabundnar breytingar á stjórnun RHA/Temporary changes in management

Í lok maí fór Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður RHA í fæðingarorlof. Hjalti Jóhannesson mun gegna starfi forstöðumanns til áramóta en þá snýr Guðrún aftur til starfa.

At end of May Gudrun Rosa Thorsteinsdottir, RHA's director, went on maternal leave. Hjalti Johannesson will take on duties as director until end of this year when Gudrun returns from her leave.

Sumarlokun hjá RHA / Summer vacations 5 July - 3 August

Ákveðið hefur verið að loka afgreiðslu RHA í fjórar vikur í sumar líkt og aðalskrifstofu háskólans. Lokunin gildir frá og með 5. júlí og þar til þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi, þann 3. ágúst.

Með bestu kveðjum,

Starfsfólk RHA



RHA's office will be closed due to summer vacations from 5 July until 3 August.

Best regards,

RHA's staff

Áhrif innköllunar aflaheimilda á stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja

RHA - Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hefur skilað ítarlegri skýrslu um afleiðingar þess fyrir fjárhag sjávarútvegsfyrirtækja ef aflaheimildir yrðu innkallaðar í áföngum til endurúthlutunar, eins og samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Skýrslan var unnin fyrir starfshóp sem Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaðir til  þess að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar.

Skýrsluna er hægt að nálgast hér

ESPON auglýsir eftir styrkjaumsóknum og verkefnatillögum

Frá og með 3. maí er opið fyrir verkefnatillögum og áhugayfirlýsingum um verkefni vegna fimm næstu verkefnaflokka byggðarannsókna. Skilafrestur fyrir tillögur og áhugayfirlýsingar er til 28. Júní 2010. Heildarupphæð til ráðstöfunar verður € 5.900.000.

Niðurstöður þjóðfunda

Miðvikudaginn 7. apríl kl. 13.00 – 16.15 verður opinn fundur í húsnæði Háskólans á Akureyri, stofu L201 Sólborg. Tilefnið er að fara yfir niðurstöður þeirra þjóðfunda sem haldnir hafa verið í öllum landshlutum.