Rannsókna- þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur sinnt rannsóknum á samfélagsáhrifum álvers- og
virkjanaframkvæmda á Austurlandi í samstarfi við Þróunarfélag Austurlands í samræmi við þingsályktun þess efnis
frá 2003. Komið hafa út fimm skýrslur í verkefninu og er lokaskýrslu að vænta í árslok 2009.
Verkefnið "Social Return" valið eitt af fyrirmyndarverkefnum Evrópusambandsins
Starfsendurhæfing Norðurlands hlaut þann heiður í vikunni að vera valið eitt af fyrirmyndaverkefnum Evrópusambandsins í flokki
nýsköpunarverkefna. Verkefnið var kynnt á 500 manna ráðstefnu í Brussel með þátttöku yfir þrjátiu landa. Yfirskrift
ráðstefnunnar var „Creation and Innovation“ .
Rannsóknaþing Norðursins (NRF) hefur birt á
heimasíðu sinni, www.nrf.is, ritgerðir frá fimmta rannsóknaþingi félagsins sem var haldið í Anchorage í
Alaska, í september á síðastliðnu ári. Alls eru birtar 44 greinar sem tengdust málefnum fimmta Rannsóknaþings Norðursins og eru
þær skrifaðar af þátttakendum rannsóknaþingsins og sérfræðingum á sviði norðurslóðamálefna.
Háskólinn á Akureyri hefur hlotið sex milljón króna styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar vegna fyrsta áfanga verkefnisins
Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á
mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga. Þóroddur Bjarnason prófessor við Hug- og félagsvísindadeild mun stýra
verkefninu.
Aðrir þátttakendur úr röðum kennara og sérfræðinga við Háskólann á Akureyri eru: Edward H. Huijbens, Grétar
Þór Eyþórsson, Hjalti Jóhannesson, Jón Þorvaldur Heiðarsson, Kjartan Ólafsson, Sigríður Halldórsdóttir, Tryggvi
Hallgrímsson, Vífill Karlsson og Þóra Kristín Þórsdóttir. Jafnframt mun hópur nemenda vinna við rannsóknina á
næstu árum.
Allskonar kynjaverjur heimsóttu RHA á öskudaginn, börnin glöddu starfsfólkið með söng og þáðu harðfisk að launum.
Það er alltaf gaman að fá börnin í heimsókn á þessum degi og sjá hversu mikið þau leggja í búninga og söng.
Greinilegt var að tíðarandinn í þjóðfélaginu hefur áhrif á börnin því sumir textanna voru skemmtilega beittir og
fjölluðu um verðbréfahrun, útrásarvíkinga, Davíð, Jón Ásgeir, Björgólf og fleira í þeim dúr. Gamli
Nói fór t.d. illa út úr verðbréfaviðskiptum og tapaði öllu sínu.
Hjördís Sigursteinsdóttir og Eyrún Jenný Bjarnadóttir kynntu North Hunt
verkefnið á Fræðaþingi landbúnaðarins á Hótel Sögu s.l. föstudag. Kynningin var á málstofu C –
Nýsköpun í dreifbýli – smáframleiðsla matvæla. Í kynningunni fjölluðu þær um skotveiðar á
Íslandi og hvernig þær hafa þróast hérlendis á síðustu árum ásamt því að fjalla um tengingu frekari
þróunar starfsgreinarinnar við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Einnig kynntu þær North Hunt verkefnið, um
hvað það snýst, hverjir taka þátt og hvað á að gera.
Út er komin skýrsla um skólamál í Öxarfirði sem unnin var að beiðni sveitarstjórnar
Norðurþings. Þar eru metnar ytri aðstæður vegna breytinga á skipulagi skólamála á svæðinu. Var þetta verkefni
kynnt fyrir sveitarstjórn Norðurþings á fundi 5. febrúar og á íbúafundi á Kópaskeri þann 6. febrúar. Höfundar
eru Hjalti Jóhannesson og Sigrún Sif Jóelsdóttir.
Atvinnuleysi eykst nú hröðum skrefum á Íslandi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir því að hið opinbera fari í
mannaflsfrekar framkvæmdir. En hvaða framkvæmdir eru mannaflsfrekar? Hvaða framkvæmdir í samgöngum eru mannaflsfrekastar? Er
það vegagerð, brúargerð eða jarðgangagerð svo helstu flokkar séu nefndir? Í apríl 2008 kom út skýrsla sem RHA vann fyrir
Vegagerðina þar sem þetta var m.a. skoðað. Það kom í ljós að mannaflsfrekustu framkvæmdir í vegagerð eru
brúargerð, í öðru lagi jarðgangagerð og þar á eftir kom hefðbundin vegagerð. Ef yfirvöld vilja grípa til þess
ráðs að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir í samgöngum ættu þau því að horfa fyrst og fremst á verk í
brúargerð.
Aðilar frá RHA – Rannsókna og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Rannsóknamiðstöð
ferðamála sem eru aðilar að North Hunt skruppu austur til Egilsstaða dagana 29 – 30 janúar sl. Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að taka
viðtöl við frumkvöðla og stefnumótunaraðila á svæðinu og hins vegar að koma á fót fyrirtækjahóp.
Kynningarfundinum Rannsóknir og nýsköpun - sóknarfæri til framfara er nú nýlega lokið í anddyri
Borga v/Norðurslóð. Erindi fluttu aðilar frá RANNÍS, Impru og AFE (Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar) og fundarstjóri var Hans
Kristján Guðmundsson, deildarforseti viðskipta- og raunvísindadeildar Háskólans á Akureyri.