Atvinnuleysi eykst nú hröðum skrefum á Íslandi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir því að hið opinbera fari í mannaflsfrekar framkvæmdir. En hvaða framkvæmdir eru mannaflsfrekar? Hvaða framkvæmdir í samgöngum eru mannaflsfrekastar? Er það vegagerð, brúargerð eða jarðgangagerð svo helstu flokkar séu nefndir? Í apríl 2008 kom út skýrsla sem RHA vann fyrir Vegagerðina þar sem þetta var m.a. skoðað. Það kom í ljós að mannaflsfrekustu framkvæmdir í vegagerð eru brúargerð, í öðru lagi jarðgangagerð og þar á eftir kom hefðbundin vegagerð. Ef yfirvöld vilja grípa til þess ráðs að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir í samgöngum ættu þau því að horfa fyrst og fremst á verk í brúargerð.