Ný heimasíða RHA opnuð

RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur formlega opnað nýja og endurbætta heimasíðu, www.rha.is. Það voru þeir Hjalti S. Hjaltason, verkefnisstjóri hjá RHA og Kristján Ævarsson, forritari hjá Stefnu hugbúnaðarhúsi, sem báru hitann og þungann af hönnum og uppsetningu nýju síðunnar.

Úthlutun úr Háskólasjóði KEA 2009

Háskólasjóði KEA bárust alls 26 styrkumsóknir í mars sl. Sótt var um styrki fyrir rúmlega 26 milljónir króna og hlutu 10 verkefni styrki að upphæð samtals kr. 6.500.000. Úthlutunarhlutfall sjóðsins var því tæp 25% þetta árið.

Samfélagsáhrif á Austurlandi

Rannsókna- þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur sinnt rannsóknum á samfélagsáhrifum álvers- og virkjanaframkvæmda á Austurlandi í samstarfi við Þróunarfélag Austurlands í samræmi við þingsályktun þess efnis frá 2003. Komið hafa út fimm skýrslur í verkefninu og er lokaskýrslu að vænta í árslok 2009.

Nýsköpunarviðurkenning

Verkefnið "Social Return" valið eitt af fyrirmyndarverkefnum Evrópusambandsins
Starfsendurhæfing Norðurlands hlaut þann heiður í vikunni að vera valið eitt af fyrirmyndaverkefnum Evrópusambandsins í flokki nýsköpunarverkefna. Verkefnið var kynnt á 500 manna ráðstefnu í Brussel með þátttöku yfir þrjátiu landa. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Creation and Innovation“ .

Rannsóknaþing Norðursins birtir ritgerðir frá fimmta þingi samtakanna

Rannsóknaþing Norðursins (NRF) hefur birt á heimasíðu sinni, www.nrf.is, ritgerðir frá fimmta rannsóknaþingi félagsins sem var haldið í Anchorage í Alaska, í september á síðastliðnu ári. Alls eru birtar 44 greinar sem tengdust málefnum fimmta Rannsóknaþings Norðursins og eru þær skrifaðar af þátttakendum rannsóknaþingsins og sérfræðingum á sviði norðurslóðamálefna.

Rannsókn á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganga

Háskólinn á Akureyri hefur hlotið sex milljón króna styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar vegna fyrsta áfanga verkefnisins Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga. Þóroddur Bjarnason prófessor við Hug- og félagsvísindadeild mun stýra verkefninu.

Aðrir þátttakendur úr röðum kennara og sérfræðinga við Háskólann á Akureyri eru: Edward H. Huijbens, Grétar Þór Eyþórsson, Hjalti Jóhannesson, Jón Þorvaldur Heiðarsson, Kjartan Ólafsson, Sigríður Halldórsdóttir, Tryggvi Hallgrímsson, Vífill Karlsson og Þóra Kristín Þórsdóttir. Jafnframt mun hópur nemenda vinna við rannsóknina á næstu árum.

Öskudagurinn á RHA

Allskonar kynjaverjur heimsóttu RHA á öskudaginn, börnin glöddu starfsfólkið með söng og þáðu harðfisk að launum. Það er alltaf gaman að fá börnin í heimsókn á þessum degi og sjá hversu mikið þau leggja í búninga og söng. Greinilegt var að tíðarandinn í þjóðfélaginu hefur áhrif á börnin því sumir textanna voru skemmtilega beittir og fjölluðu um verðbréfahrun, útrásarvíkinga, Davíð, Jón Ásgeir, Björgólf og fleira í þeim dúr. Gamli Nói fór t.d. illa út úr verðbréfaviðskiptum og tapaði öllu sínu.

Kynning á North Hunt verkefninu á Fræðaþingi landbúnaðarins

Hjördís Sigursteinsdóttir  og Eyrún Jenný Bjarnadóttir kynntu North Hunt verkefnið á Fræðaþingi landbúnaðarins á Hótel Sögu s.l.  föstudag.  Kynningin var á málstofu C – Nýsköpun í dreifbýli – smáframleiðsla matvæla.  Í kynningunni  fjölluðu þær  um skotveiðar á Íslandi og hvernig þær hafa þróast hérlendis á síðustu árum ásamt því að fjalla um  tengingu frekari þróunar starfsgreinarinnar við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.  Einnig kynntu  þær  North Hunt verkefnið, um hvað það snýst, hverjir taka þátt og hvað á að gera.

Skýrsla um skólamál í Öxarfirði

Út er komin skýrsla um skólamál í Öxarfirði sem unnin var að beiðni sveitarstjórnar Norðurþings.  Þar eru metnar ytri aðstæður vegna breytinga á skipulagi skólamála á svæðinu.  Var þetta verkefni kynnt fyrir sveitarstjórn Norðurþings á fundi 5. febrúar og á íbúafundi á Kópaskeri þann 6. febrúar.  Höfundar eru Hjalti Jóhannesson og Sigrún Sif Jóelsdóttir.

Mannaflaþörf og tækjanotkun í vegagerð

Atvinnuleysi eykst nú hröðum skrefum á Íslandi.  Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir því að hið opinbera fari í mannaflsfrekar framkvæmdir.  En hvaða framkvæmdir eru mannaflsfrekar?  Hvaða framkvæmdir í samgöngum eru mannaflsfrekastar?   Er það vegagerð, brúargerð eða jarðgangagerð svo helstu flokkar séu nefndir?  Í apríl 2008 kom út skýrsla sem RHA vann fyrir Vegagerðina þar sem þetta var m.a. skoðað.  Það kom í ljós að mannaflsfrekustu framkvæmdir í vegagerð eru brúargerð, í öðru lagi jarðgangagerð og þar á eftir kom hefðbundin vegagerð.  Ef yfirvöld vilja grípa til þess ráðs að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir í samgöngum ættu þau því að horfa fyrst og fremst á verk í brúargerð.

Lesa meira