Nýtt met var slegið í þátttöku í Vísindaskóla unga fólksins í ár en alls um 90 börn voru skráð til leiks. Drengir voru í meirihluta. Forseti Íslands heiðraði skólann með þvi að taka þátt í útskriftarathöfninni. Þetta er í níunda skipti sem skólinn starfar. Hann er ætlaður ungu fólki á aldrinum 11-13 ára.
Á hverju ári hefur skólinn boðið nemendum upp á ný og krefjandi verkefni. Að þessu sinni var yfirskrift verkefnanna Tónar og leikur, Að eiga hvergi heima, Laganna verðir og gæludýr, Vatnið er verðmæti og Áhrifaveldarnir í lífi okkar.
Guðni Th. Jóhannesson ávarpaði nemendur en lét ekki þar við sitja heldur sló líka á létta strengi og svaraði hraðaspurningum nemenda um ólíklegustu hluti. Er erfitt að vera forseti? Hvað þýðir Th í nafninu þínu? Finnst þér gaman í sundi?
Nemendur fluttu ávörp og ung efnileg söngkona frá Dalvík heillaði gesti með söng.
Rekstur Vísindaskólans hefur verið í höndum RHA frá því skólinn byrjaði árið 2015. Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri RHA og Sigrún Stefánsdóttir héldu utan um framkvæmd skólans. Þær vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem styrkja skólann og gera það mögulegt að halda þátttökugjöldum í lágmarki.