Landsmenn hafa verið rækilega minntir á það að við búum á eldfjallaeyju. En hvað vita börn um ástæður jarðhræringa og eldgosa? Vísindaskóli unga fólksins mun leggja sitt að mörkum til þess að fræða börn um þessa þætti en skólinn verður nú starfræktur í 7. sinn í sumar, nánar tiltekið dagana 21.-25. júní.
Þó ekki sé hægt að stjórna því sem gerist undir yfirborði jarðar er hægt að stjórna því sem fram fer á landinu. Þátttakendur í Vísindaskólanum munu fá heimsókn starfsmanna Alþingis sem ætla að kenna ungu kynslóðinni allt um störf þingsins og hvernig landinu er stjórnað. Það eru þingkosningar í haust og ungu vísindamennirnir mun væntanlega fylgjast grant með þeim og sjá til þess að forráðamenn þeirra nýti sér kosningaréttinn.
Vísindaskóli unga fólksins hefur á hverju ári boðið upp á fimm ný þemu. Auk þema um jarðfræði, stjórn landsins og störf Alþingis verður lögð áhersla á náttúrufræði, orkumál, heilsu og hreyfinu. Börn á aldrinum 11-13 ára geta sótt um inngöngu í Vísindaskóla unga fólksins og það er hægt að nota tómstundastyrkinn til þess að greiða þátttökugjaldið. Fjölmargir aðilar styrkja starfsemi skólans sem er nú rekinn af RHA. Opnað verður fyrir innritun seinni partinn í mars. Alls geta 75-80 börn komist að. Sjá nánar um skólann hér.