Greint var frá afrakstri rannsóknaverkefnis RHA um samstarf sveitarfélaga á málstofu í Háskólanum á Akureyri þann 29. apríl síðastliðinn. Var málstofan vel sótt af fólki allstaðar að af landinu og góðar umræður tókust um þetta mikilvæga málefni.
Ljóst er að umfang samreksturs er mikið víðast hvar og hefur aukist á síðustu árum í kjölfarið á yfirtöku verkefna á borð við málefni fatlaðra. Lítið hefur verið um sameiningar sveitarfélaga um nokkurn tíma en þess í stað horft til samstarfs til að unnt sé að veita íbúum sem jafnasta þjónustu án tillits til stærðar sveitarfélags. Nú eru um 330 samstarfsverkefni og hvert sveitarfélag er þátttakandi í 20-25 samstarfsverkefnum. Rekstrarform samstarfs er mjög mismunandi milli svæða og yfirsýn virðist vera takmörkuð. Í ljósi niðurstaðna viðhorfskönnunar meðal sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga til samstarfs er ekki ólíklegt að breytingar séu handan við hornið. Byggðarannsóknasjóður styrkti rannsóknina.
Nálgast má skýrslu rannsóknarinnar, glærukynningar og upptöku af málstofunni hér.