RHA vinnur um þessar mundir að tveimur verkefnum tengdum áætlanagerð í samgöngum.
Annars vegar er um að ræða verkefni sem unnið er fyrir Vegagerðina og snýst um að skoða líkleg samfélagsleg- og efnahagsleg áhrif jarðganga sem eru á áætlun. Verkefnið byggir á aðferðum sem RHA þróaði fyrir allmörgum árum og hefur m.a. beitt í tengslum við samanburð jarðganga á Austurlandi. Skoðuð verður hver verður möguleg arðsemi jarðganganna, breyting á slysatíðni, breytingar á samskiptum svæða og áhrif á byggaþróun. Hér má sjá yfirlitsskýslu Vegagerðarinnar frá því sumarið 2021 um helstu jarðgangakosti framtíðarinnar á landinu.
Hins vegar er um að ræða verkefni með SSNE - Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra um gerð samgönguáætlunar fyrir landshlutann, nánar tiltekið samgöngur á landi. Samskonar áætlanir hafa verið gerðar á Vesturlandi (2017) og Norðurlandi vestra (2019). Í stórum dráttum er miðað við að beita svipaðri nálgun hér og í verkefninu fyrir Vegagerðina sem sagt er frá að ofan. Þess er vænst að með þessu móti verði hægt að birta lista yfir helstu samgönguverkefni sem talin eru mikilvægust fyrir íbúa landshlutans. Hér má sjá skýrslu sem Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor vann í tengslum við þetta verkefni og má líta á hana sem einskonar hugmyndabanka, settan fram af honum, um mögulegar framkvæmdir í landshlutanum. Bæði setur Jón þarna fram hugmyndir um framkvæmdir sem hafa lengi verið í umræðunni og eru jafnvel á samgönguáætlun (útfærsla kann þó að vera önnur í sumum tilvikum) en einnig má finna hugmyndir um stærri eða minni breytingar á vegakerfinu sem aldrei hafa borið fyrir augu almennings áður.
Við áframhaldandi vinnu við val á verkefnum til nánari skoðunar og samanburðar verður bæði litið til þessa hugmyndabanka en einnig til smærri og/eða "nærtækari" samgönguverkefna sem teljast fremur viðhald eða framhald á núverandi vegakerfi. Verður val verkefna og áframhaldandi vinna við áætlunina unnin í samstarfi við SSNE.
Bæði verkefnin eru unnin af Hjalta Jóhannessyni, sérfræðingi hjá RHA og Jóni Þorvaldi Heiðarssyni, lektor við HA og fyrrverandi sérfræðingi RHA.