31% eða tæplega þriðjungur íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið segja að breyting hafi orðið á vinnusókn sinni í kjölfar Covid-19 faraldursins. Þá segja 23% íbúa nærsveita Akureyrar sem sækja vinnu til Akureyrar að breyting hafi orðið á vinnusókn þeirra á sama tímabili. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri framkvæmdi í vor sem hafa nú verið birtar í skýrslunni Áhrif fjarvinnu á vegakerfið, rannsóknin var unnin með tilstyrk Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar.
Tilgangur þessarar rannsóknar er að bæta stöðu þekkingar um áhrif fjarvinnu á ferðamynstur og þar af leiðandi á vegakerfið.
Mest breyting á Suðurlandi
Mesta breytingin hefur orðið á vinnusókn íbúa Suðurlands til höfuðborgarsvæðisins, en 39% þeirra íbúa sem sóttu vinnu til höfuðborgarsvæðisins fyrir heimsfaraldurinn sögðu breytingu hafa orðið á vinnusókn sinni í kjölfar Covid, í samanburði við 21% íbúa Vesturlands og 31% íbúa Suðurnesja. Niðurstöður könnunarinnar voru að 68% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins (íbúar Akraness, Hveragerðis, Selfoss, Þorlákshafnar, Eyrarbakka, Stokkseyrar, Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðsins, Voga og Hafna) sem sóttu vinnu á höfuðborgarsvæðið, sóttu vinnu þangað 5 sinnum í viku eða oftar fyrir Covid, en nú gera 53% það. Flestir íbúar Suðurlands sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið gera það nú 4 sinnum í viku, frekar en 5 sinnum í viku. Minni aukning virðist hafa orðið á fjarvinnu í nærsveitum Akureyrar en, 74% íbúa þeirra sem sóttu vinnu til Akureyrar fyrir Covid sóttu vinnu þangað 5 sinnum í viku eða oftar, en nú gera 70% það.
Gróflega má áætla að Ársdagsumferð eða ÁDU (meðalumferð á dag yfir árið) hafi dregist saman um allt að 1,6% á veginum frá Suðurlandi til höfuðborgarsvæðisins vegna samdráttar í vinnusókn.
Fjölmargar ástæður eru fyrir því að fólk þarf að sækja vinnu utan heimabyggðar. Margir þátttakendur bentu á að þeir ættu ekki kost á svipaðri vinnu í heimabyggð, engin vinna væri í boði í sveitinni og í sumum tilfellum færi atvinnumöguleikum viðkomandi fækkandi í heimabyggð. Einnig var bent á að launin væru yfirleitt betri á Akureyri en í nærsveitum hjá stærri fyrirtækjum, sem þar væru, og því neyddust sumir til að sækja vinnu utan heimabyggðar vegna launanna.
Svo virðist sem mikil aukning hafi orðið á möguleikum á fjarvinnu eftir faraldurinn. Þannig sögðust 63% þeirra sem sækja vinnu utan heimabyggðar hafa einhvern möguleika á að vinna sína vinnu heima/ í heimabyggð en 37% sögðust ekki hafa möguleika á því. Viðsnúningur er á hlutfalli þeirra sem segjast hafa möguleika á heimavinnu í dag samanborið við rannsóknir sem voru framkvæmdar fyrir Covid. Þannig leiddi rannsókn ViaPlan frá 2018 í ljós að milli 60 og 70% þátttakenda frá Akranesi, Selfossi og Hveragerði höfðu ekki möguleika á að vinna heima. Í þessari rannsókn sögðu hins vegar aðeins 23% þátttakenda frá Akranesi, 28% frá Selfossi, og 39% frá Hveragerði að þeir hefðu ekki möguleika á að vinna sína vinnu heima. Þetta gefur vísbendingu um að breyting hafi orðið á viðhorfi gagnvart fjarvinnu hjá þeim íbúum jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins. Í könnuninni kom fram munur milli íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins annars vegar og íbúa nærsveita Akureyrar hins vegar en rétt tæplega helmingur íbúa nærsveita Akureyrar eða 49% sögðust ekki geta stundað vinnu sína heima/í heimabyggð, í samanburði við 32% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins.
Möguleiki á fjarvinnu fyrir þennan hóp getur bætt lífsgæði þeirra en nokkrir þátttakendur sem áttu kost á fjarvinnu lýstu yfir létti yfir að geta unnið meira heima, mikilvægt væri að þurfa ekki að mæta á skrifstofuna oftar en maður vill. Nokkrir þátttakendur bentu þó á að það væri skortur á fjarvinnuvinnurýmum/opnum vinnustöðvum í heimabyggð þeirra. Einn þátttakandi sagðist vona að á næstu árum yrði meiri menning fyrir því að sveitarfélög byðu upp á vinnurými fyrir íbúa sem stunduðu vinnu utan heimabyggðar. Annar þátttakandi lagði til að það yrðu kjarasamningsbundin ákvæði varðandi fjarvinnu.
Talsverðan kynjamun er að finna í könnuninni í vinnusókn, 65% kvenna sem sóttu vinnu utan heimabyggðar gerðu það 5 sinnum í viku eða oftar fyrir Covid en aðeins 45% eftir Covid. Breytingin er þó einungis 4 prósent hjá körlum, úr 75% í 71%
Einnig eru vísbendingar um mun eftir menntun. Þriðjungur þátttakenda með háskólamenntun sagði breytingu hafa orðið á vinnusókn sinni í samanburði við 23% þátttakenda með grunnskóla- eða framhaldsskólamenntun. Af þeim sem sóttu vinnu utan heimabyggðar fyrir Covid sóttu 67% háskólamenntaðra vinnu utan heimabyggðar 5 sinnum í viku í samanburði við 75% þátttakenda með grunnskóla- eða framhaldsskólamenntun. Eftir Covid hefur bilið breikkað í 50% og 70%.
Niðurstöður könnunarinnar eru að einkabíllinn er lang algengasti samgöngumátinn til vinnusóknar milli bæjarfélaga. Aðeins 1% þeirra sem sækja vinnu utan heimabyggðar segjast nota almenningssamgöngur til vinnusóknar en 95% einkabíl. Af þeim sem ferðast með einkabíl eru 90% einir í bílunum. Rafbílar eru að sækja í sig veðrið en 35% ferðast með rafbíl til að sækja vinnu og samkvæmt 81% rafbílaeigenda hafði það að mjög miklu leyti áhrif á að skipta yfir í rafbíl að sækja vinnu um lengri leið.
Í opnum svörum komu þónokkrar athugasemdir varðandi almenningssamgöngur. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að vilji sé hjá mörgum til að nýta þær sér til vinnusóknar ef þær myndu henta betur. Þátttakendur gagnrýndu tíðni þeirra, verð, tímasetningu, og vandræði sem koma upp innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Talað var um að strætisvögnum sem fara frá Mjódd (þangað sem til dæmis strætó frá Akranesi og Hveragerði kemur) sé ekki treystandi vegna umferðartafa og því gæti seinkun á strætó þangað leitt til biðar í allt að klukkutíma eftir næsta vagni. Frá nærsveitum Akureyrar bentu þátttakendur sem nýta ferju til að sækja vinnu á að stundum sigli hún ekki vegna bilunar og að hún fari heldur ekki ef vegurinn niður að bryggju sé lokaður.
Fjallað er nánar um viðhorf til ástands vega og áhrif aukinnar fjarvinnu á umferð í skýrslunni, en hér má lesa skýrsluna í heild sinni. Höfundar skýrslunnar eru Sæunn Gísladóttir og Anna Soffía Víkingsdóttir, sérfræðingar hjá RHA.
Gagnaöflun stóð yfir frá 13. apríl til 31. maí, alls barst 271 svar.
Höfundar skýrslunnar bera ábyrgð á innihaldi hennar. Niðurstöður hennar ber ekki að túlka sem yfirlýsta stefnu Vegagerðarinnar eða álit þeirra stofnana eða fyrirtækja sem höfundar starfa hjá.