Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við HA fengu nýverið, fyrir hönd RHA, úthlutað styrk úr fyrstu úthlutun Byggðarannsóknasjóðs. Verkefni þeirra kallast Samstarfsverkefni sveitarfélaga.
Samstarf sveitarfélaga hefur þróast með mismunandi hætti eftir landshlutum, bæði hvað varðar umfang og form. Kortlögð verða samstarfsverkefni á starfssvæðum landshlutasamtaka sveitarfélaga og kannað viðhorf sveitarstjórnarmanna til reynslu af samstarfinu. Helsta markmið verkefnisins er að greina hvort tiltekin form samstarfs hafi reynst betur en önnur og hver vilji sveitarstjórnarmanna er hvað varðar framtíð samstarfs. Netkönnun verður gerð meðal sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga og tekin viðtöl. Niðurstöður verkefnisins eru hagnýtar fyrir framtíðarstefnumótun um skipulag samstarfs og þjónustu sveitarfélaga og stofnana þeirra.
Sjá nánar í frétt á heimasíðu Byggðastofnunar.