Út eru komnar tvær skýrslur um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu sem unnar voru í sameiningu af Rannsóknamiðstöð ferðamála og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Var markmiðið að greina þær breytingar sem orðið hafa vegna aukins fjölda ferðafólks á þremur stöðum á landinu, þ.e. Höfn í Hornafirði, Mývatnssveit og Siglufirði. Í fyrri skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðu símakönnunar sem var framkvæmd á svæðunum þremur árið 2016 og svæðin þrjú borin saman. Í ljós kom talsvert greinilegur munur á umfangi og eðli breytinganna á svæðunum þremur.
Einnig voru birtar þemagreindar niðurstöður úr viðtölum við íbúa á stöðunum en þær niðurstöður féllu í stórum dráttum vel að niðurstöðum símakönnunarinnar. Einnig var hvert svæði greint út frá fyrirliggjandi gögnum svo sem fjölda íbúa og gesta. Slóð á skýrsluna má nálgast hér.
Seinni skýrslan er fyrst og fremst gerð til þess að sýna frekara niðurbrot á hverju svæði fyrir sig og greina spurningakönnunina eftir fleiri bakgrunnsbreytum. Niðurstöðurnar eru sýndar án lýsandi tölfræði en ættu að vera áhugaverðar fyrir þá sem vilja kynna sér hvert svæði fyrir sig betur. Slóð á skýrsluna má finna hér.