Í gær afhenti Birgir Guðmundsson, prófessor við HA Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrslu starfshóps og RHA um svæðisbundið hlutverk Akureyrar. Megintillaga starfshópsins er að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði flokkuð í byggðastefnu stjórnvalda sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu. Starfshópurinn var skipaður af ráðherra í október 2020 og átti samstarf við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Byggðastofnun og SSNE við gerð skýrslunnar.
Í tillögunum kemur fram að þetta tryggi best sjálfbæra þróun allra byggða á Norðurlandi og austur um land. Það skapi nýja og áhugaverða valkosti í búsetu á landinu og styrki þannig samkeppnisstöðu Íslands í heild gagnvart útlöndum. Lagt er til að Akureyri verði sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna og fái bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Þannig muni nýtt byggðastig bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar.
Dregin voru fram níu áhersluatriði í tillögunum:
Tilurð þessa verkefnis er sú að samþykkt var sem áhersluverkefni í sóknaráætlun Norðurlands eystra að skilgreina borgarhlutverk Akureyrar. Fékk RHA styrk til þess að vinna að því verkefni. Í framhaldinu skipaði ráðherra byggðamála starfshóp. Birgir Guðmundsson var formaður starfshópsins og fulltrúi ráðherra. Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, sátu í starfshópnum sem fulltrúar SSNE. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri og Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi voru fulltrúar Akureyrarbæjar í starfshópnum. Með hópnum störfuðu Hanna Dóra Hólm Másdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Reinhard Reynisson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, Baldvin Valdemarsson, sviðsstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE. Arnar Þór Jóhannesson var verkefnisstjóri RHA við rannsóknir RHA tengdar skýrslugerðinni og að þeirri vinnu kom einnig Hjalti Jóhannesson fyrir hönd RHA.
Í skýrslunni er byggt á fræðilegum heimildum, sögulegum gögnum og könnunum og viðtölum sem voru sérstaklega tekin fyrir þetta verkefni. Hitann og þungann af þeirri vinnu bar Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri auk þess sem sérfræðingar frá Byggðastofnun og SSNE veittu ráðgjöf. Efnistök, túlkanir og tillögur eru þó á ábyrgð starfshópsins sjálfs.