Samnorrænni jafnréttisrannsókn ýtt úr vör í Lillehammer

Sæunn Gísladóttir (RHA), Lisa Knatterud Wold (Østlandsforskning), Ulf Hansson (Dalarna), Zuzana Macu…
Sæunn Gísladóttir (RHA), Lisa Knatterud Wold (Østlandsforskning), Ulf Hansson (Dalarna), Zuzana Macuchova (Dalarna), Deniz Akin (Østlandsforskning).

Í síðustu viku komu saman í Lillehammer í Noregi fulltrúar frá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA), rannsóknamiðstöðinni Østlandsforskning við Høgskolen i Innlandet (Noregur) og Dalarna háskóla (Svíþjóð). Tilgangur vinnufundana var að ýta úr vör hinu samnorræna rannsóknarverkefni, Enhancing labour opportunities for Ukrainian women in rural Nordic communities.

Um er að ræða tveggja ára verkefni, styrkt af NIKK jafnréttissjóðnum, sem snýr að því að rannsaka hvernig konum sem flúðu Úkraínu eftir innrás Rússa til Norðurlandanna hefur vegnað á norrænum vinnumarkaði. Rýnihópar verða framkvæmdir og viðtöl tekin við úkraínskar konur og lykilaðila sem vinna með flóttamönnum til að kanna stuðning og hindranir við vinnumarkaðsþáttöku. Einnig verður kannað hvort draga megi lærdóm af upplifun þessa fólks af norrænum vinnumörkuðum til að styðja betur við atvinnuþátttöku annarra flóttamannahópa.

RHA leiðir verkefnið, en Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá RHA, sótti fundina í Lillehammer og mun hún ásamt Mörtu Einarsdóttur, sérfræðingi hjá RHA, stýra verkefninu. Í Lillehammer hittist rannsóknarhópurinn í fyrsta sinn í persónu og var lögð áhersla á bæði undirbúning verkefnisins og jafnframt að kynnast betur sem rannsakendur og fara yfir helstu rannsóknir hverrar stofnunar. Ljóst er að miklir möguleikar eru til frekara samstarfs milli þessara norrænu stofnana en hinar stofnanirnar hafa meðal annars rannsakað byggðaþróun og jafnréttismál svo eitthvað sé nefnt.

Stefnt er að því að hefja gagnasöfnun í verkefninu núna í vetur og funda á ný á Akureyri næstkomandi vor. Verkefninu lýkur í ágústlok 2026.

Það var fallegt haustveður í Lillehammer.