RHA - Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hefur hlotið tveggja milljóna króna styrk úr Jafnréttissjóði til rannsóknarinnar: Íslenska ofurfjölskyldan - samræming fjölskyldulífs og atvinnu. Dr. Marta Einarsdóttir hjá RHA er verkefnisstjóri og mun vinna rannsóknina í samstarfi við Andreu Sigrúnu Hjálmsdóttur, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.
Jafnréttissjóður er rannsóknarsjóður á vegum forsætisráðuneytisins og var settur á laggirnar árið 2005 í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Sjóðnum er ætlað að vera framlag og hvatning til þess að hér á landi séu unnar vandaðar rannsóknir á sviði jafnréttis- og kynjafræða og stuðla þannig að bættri stöðu kvenna og karla og framgangi jafnréttis. Í ár var úthlutað 8,6 milljónum króna til fjögurra verkefna en umsækjendur voru alls 17. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, afhenti styrkinn á morgunverðarmálþingi á Grand Hótel á kvennafrídeginum 24. október.