Skýrslan var unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Um er að ræða áhersluverkefni sóknaráætlana landshluta árið 2017.
Í skýrslunni er dregin saman staða heilbrigðisþjónustu í landshlutanum og borin saman við Vestfirði sem er samanburðarsvæði í þessari rannsókn. Helsti munurinn á þessum svæðum er að á Vestfjörðum er skurðlæknir og fæðingarþjónusta sem er ekki á Norðurlandi vestra. Skurðstofa er til staðar á Sauðárkróki en hún er aðeins notuð í mjög einföld verkefni. Erfiðlega gengur að fastráða heimilislækna á Norðurlandi vestra líkt og annars staðar á landsbyggðinni og skýra þarf betur reglur um komur sérfræðilækna. Almennt virðist skorta reglur um framboð á þjónustu og ræðast framboðið frekar af hefð heldur en mælanlegri þörf. Sálfræðiþjónusta hefur aukist á svæðinu öllu en skortur er á þjónustu geðlækna á svæðinu og er mjög brýnt að leysa úr þeirri þörf að mati skýrsluhöfundar.
Nánari upplýsingar um stöðu heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi vestra má sjá í skýrslu RHA.