Samkvæmt nýrri netkönnun Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri eru talsverðar breytingar á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi frá kosningunum 2017. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 23% fylgi og Framsóknarflokkurinn næst stærstur með 18,2% fylgi og bætir við sig tæpum fjórum prósentustigum ef þetta verður niðurstaðan. Vinstri græn mælast með 14,2% fylgi og Samfylkingin með tæp 11%. Fylgi Miðflokksins mælist 9,7%, Pírata 7,9% og Sósíalistaflokksins 7,1%. Fylgi annarra flokka er minna og eru þeir nokkuð frá því að ná inn kjördæmakjörnum manni.
Gangi þetta eftir fá Sjálfstæðismenn þrjá kjördæmakjörna þingmenn, Framsóknarflokkurinn tvo, Vinstri græn, Samfylking, Miðflokkur og Píratar einn hver. Litlu má hins vegar muna að annar maður Vinstri grænna eða fyrsti maður Sósíalista velti þriðja manni Sjálfstæðisflokks úr sessi.
Könnunin var gerð dagana 26. ágúst til 6. september og alls bárust 1354 svör. Af þeim voru 37,8% óákveðin, 3,7% vildu ekki svara og 2,3% hyggjast ekki kjósa. Alls tók 751 afstöðu til þess hvaða flokk hann hyggst kjósa.