Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar myndi meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar, sem skipaður er Framsóknarflokki, Samfylkingunni og L-listanum, falla ef kosið yrði í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi allra stjórnmálaflokka á Akureyri eða 28,6% og fengi fjóra kjörna bæjarfulltrúa ef gengið yrði til kosninga í dag. Sjálfstæðisflokkurinn myndi því bæta við sig einum manni frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Framsóknarflokkurinn tapar hins vegar manni. Flokkurinn mælist með 9,6% fylgi og fengi einn mann kjörinn ef kosið yrði nú.
Samfylkingin mælist með 19,3% og fengi tvo menn kjörna líkt og fyrir fjórum árum. L-listinn fengi sömuleiðis tvo menn kjörna. Flokkurinn mælist með 19% fylgi og héldi sínum tveimur bæjarfulltrúum. Munurinn á milli Samfylkingar og L-listans er ekki marktækur. Vinstri grænir mælast með 10,7% fylgi og einn mann kjörinn líkt og í síðustu kosningum.
Miðflokkurinn mælist með 7,8% fylgi og fengi einn mann kjörinn. Píratar mælast með 5,1% fylgi og næði ekki fulltrúa inn í bæjarstjórn. Þessir tveir flokkar eru að bjóða fram í fyrsta sinn á Akureyri en framboðslistar þeirra lágu ekki fyrir þegar könnunin hófst.
Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 23. apríl til 4.maí. Haft var samband við rúmlega þúsund manns í gegnum tölvupóst og fengust 663 svör. Óákveðnir voru 243 og 24 vildu ekki svara. Tveir sögðust kjósa annan flokk og tuttugu ætluðu ekki að kjósa. Svarhlutfallið var 62%.
Fréttina í heild sinni má sjá inn á heimasíðu Vikudags
RHA mun birta fleiri niðurstöður úr könnuninni, um ýmis málefni sem snerta bæjarbúa, á næstu dögum.