Norðurorka hefur verið mikilvægur stuðningsaðili við Vísindaskóla unga fólksins allt frá stofnun hans árið 2015. Eitt af þemum vísindaskólans á hverju ári tengist orku og orkunýtingu á einhvern hátt. Vísindaskólinn hefst mánudaginn 23. júní og er ætlaður börnum 11-13 ára. Opnað verður fyrir skráningar í byrjun apríl.
Föstudaginn 14. mars undirrituðu Norðurorka og Vísindaskóli unga fólksins samning til þriggja ára og var skrifað undir samning í húsakynnum Norðurorku á Rangárvöllum. Á myndinni eru Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku og Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri Vísindaskóla unga fólksins. Dana starfar sem verkefnastjóri hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og jafnframt sem verkefnastjóri Vísindaskólans.