Mikill meðbyr er með orkuskiptum í flugi á Íslandi. Í fyrstu flugstefnu landsins sem kom út árið 2019 kemur fram að meðal helstu áherslna til að ná fram markmiði um umhverfislega sjálfbærar flugsamgöngur er að stefna að hvötum til orkuskipta í flugi þegar fullnægjandi tækni hefur verið þróuð og stuðlað að nýtingu innlendra umhverfisvænna orkugjafa. Einnig segir í Orkustefnu fyrir Ísland sem gildir til ársins 2050 að mikilvægt sé að víkka stefnumótun og aðgerðir fyrir orkuskipti þannig að þau taki til sviða sem enn eru að miklu leyti háð jarðefnaeldsneyti, svo sem flugtengdrar starfsemi. Starfshópur var skipaður til að vinna Stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi og samkvæmt tillögu um orkuskipti í flug sem samþykktur var á Alþingi árið 2021 átti að byrja að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030.
Þetta kemur fram í stöðuskýrslu sem samnorræna rannsóknastofnunin Nordregio birti í gær, Electric Aviation Outlook in the Nordics. Skýrslan er hluti af rannsókninni Electric Aviation and the Effects on Nordic Regions en RHA leiðir íslenska hluta rannsóknarinnar. Hjalti Jóhannesson og Sæunn Gísladóttir taka þátt í rannsókninni fyrir hönd RHA.
Í skýrslunni segir meðal annars frá stöðu máli í rafmagnsflugi á Íslandi í dag. Fyrstu farþegaferðunum síðastliðið sumar þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands flugu m.a. í fyrstu rafmagnsflugvél landsins.
Einnig er fjallað um framtíðarhorfur í rafmagnsflugi hér á landi. Icelandair hefur tilkynnt um fjárfestingu í þróun 30-sæta vélar Heart Aerospace sem mun ganga fyrir rafmagni ásamt flugvélaeldsneyti. Vélin mun komast 200 kílómetra á rafmagni og 400 kílómetra ásamt flugvélaeldsneyti. Til að setja þetta í samhengi kæmist vélin langleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur á eingöngu rafmagni en flugleiðin er um 250 km.
Fjallað er um ljónin í veginum í rafvæðingu flugvélaflota landsins í skýrslunni, meðal annars raforkuafhendingarvandamál sem gætu komið upp.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni, en í henni er einnig að finna stöðulýsingar í hinum Norðurlöndunum.
Um þessar mundir er RHA að hefja næsta áfanga rannsóknarinnar sem felur í sér “case study” þar sem möguleiki á rafmagnsflugi verður skoðaður á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur og rætt verður m.a. við sérfræðingahóp. Væntanlegt er að afrakstur þeirrar vinnu verði birtur í lok árs.