RHA vann ásamt Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) rannsókn á áhrifum Holtavörðuheiðarlínu 1 á ferðaþjónustu og útivist. Afraksturinn er skýrsla sem er ein fjölmargra sérfræðiskýrsla er liggja til grundvallar umhverfismats línunnar. Umhverfismat Holtavörðuheiðarlínu 1 er í kynningarferli um þessar mundir með athugasemdafresti til 29. nóvember 2024.
Um er að ræða 91 km langan kafli í nýrri kynslóð 220 kV byggðalínu milli Klafastaða í Hvalfirði, um Borgarfjarðarhérað og Holtavörðuheiði og nýs tengivirkis fyrir botni Hrútafjarðar.
Núverandi byggðalína er rúmlega 50 ára gömul. Ný 220 kV byggðalína mun liggja milli Fljótsdalsvirkjunar og Klafastaða og verða með um eða yfir fimm faldri flutningsgetu þeirrar gömlu. Markmið með línubyggingunni er að bæta afhendingaröryggi á byggðalínusvæðinu og auka tiltæka afhendingargetu ásamt því að stuðla að orkuskiptum í landinu með því að tengja nýja endurnýjanlega orkuframleiðslu við meginflutningskerfið. Nú þegar er búið að leggja nýjar 220 kV línur milli Fljótsdalsvirkjunar og Akureyrar en eftir á að leggja Blöndulínu 3 milli Akureyrar og Blöndu, Holtavörðuheiðarlínu 3 milli Blöndu og nýs tengivirkis í botni Hrútafjarðar og umrædda Holtavörðuheiðarlínu 1. RHA hefur komið að umhverfismati þriggja síðastnefndu línanna með mati á áhrifum á samfélag, ferðaþjónustu og útivist.
Meðal þess sem fram kom í þessari rannsókn RHA og RMF er að áhrifasvæði framkvæmdanna er nokkuð mikilvægt fyrir útivist og ferðaþjónustu en mikil uppbygging ferðaþjónustu hefur átt verið í Borgarfirðinum á undanförnum 5-10 árum.
Fjölbreytt útivist er stunduð nær og fjær valkostum um línuleiðir. Meðal annars eru nokkrar vinsælar veiðiár innan marka áhrifasvæðisins sem er 5 km til hvorrar handar frá línuleiðum. Svæðið er því mikilvægt fyrir ýmsa hópa útivistarfólks, s.s. veiðimenn, hestamenn, hjólreiðafólk og þá sem stunda fjallgöngur. Nálægð við þéttbýliskjarna s.s. Borgarnes, Akranes og höfuðborgarsvæðið gefur svæðinu aukið gildi fyrir útivist. Í viðtölum við útivistarfólk kom fram að framkvæmdin yrði í flestum tilfellum ekki sýnileg frá helstu útivistarsvæðunum innan áhrifasvæðisins. Það skýrist helst af því að línuleiðin lægi að mestu um landbúnaðarlandslag og/eða byggð svæði.
Samkvæmt viðtölum sem tekin voru við ferðamenn myndu áhrif framkvæmdanna við Holtavörðuheiðarlinu 1 hafa lítil sem engin áhrif á komur ferðamanna eða upplifun þeirra af svæðinu. Þeir skynjuðu landslagið á svæðinu sem dreifbýli/landbúnaðarland í grunninn og töldu eðlilegt að mannvirki á borð við rafmagnslínur bæru fyrir augu í byggðu landslagi.
Ferðaþjónusta og útivist á svæðinu eru hvað viðkvæmust á meðan á framkvæmdunum stendur og á meðan það jarðrask sem þær munu valda er að gróa.
Að rannsókninni unnu Hjalti Jóhannesson frá RHA og Vera Vilhjálmsdóttir frá RMF.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.