Baldvin Valdemarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður RHA til næstu 12 mánaða frá 16. ágúst sl. Baldvin var sviðsstjóri Atvinnu- og byggðaþróunar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi Eystra (SSNE) og hefur verið þar og hjá forverum þess Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar sl. 9 ár. Baldvin þekkir vel til styrktar- og rannsóknarumhverfis atvinnu- og byggðamála. Hann hefur fjölbreytta reynslu af mati umsókna inn í m.a. Sóknaráætlun og Uppbyggingarsjóð Norðurlands Eystra . Einnig hefur hann verið í verkefnastjórn um borgarhlutverk Akureyrar en það verkefni er í umsjón RHA.
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, sem hefur sinnt starfi forstöðumanns RHA sl. 13 ár, hefur tekið við sem forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna við Háskólann á Akureyri. Hún hefur starfað hjá RHA frá 2006, lengst af sem forstöðumaður eða síðan í ársbyrjun 2008. Guðrún var jafnframt framkvæmdarstjóri skrifstofu Rannsóknarþings Norðursins (e: Northern Research Forum (NRF)) frá 2007 til 2017. Guðrún hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum í starfi sínu á RHA, m.a. sem snúa að norðurslóða-, mennta- og byggðamálum og sinnti starfi rannsóknastjóra HA fyrir tíð Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna. Guðrún þekkir mjög vel til Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna þar sem hún hefur setið í doktorsnámsráði frá stofnun þess og setið í matsnefndum sem metið hafa umsóknir doktorsnema.
Við bjóðum Baldvin hjartanlega velkominn til starfa og þeim Guðrúnu óskum við velfarnaðar í starfi.