Guðfinna Aðalgeirsdóttir mun hafa aðsetur á RHA næstu vikurnar en Guðfinna er í rannsóknaleyfi frá HÍ og vinnur að loftlagsskýrslu milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna.
Guðfinna er prófessor við Jarðvísindadeild HÍ þar sem hún kennir bæði grunn og framhaldsnemendum og rannsakar jökla Íslands og hvernig þeir bregðast við loftlagsbreytingum. Í fyrri verkefnum hefur hún tekið þátt í rannsóknum í Alaska, í Sviss, á Suðurskautslandinu, og einnig unnið að tengingu loftlags og jöklalíkana fyrir Grænlandsjökul.
Hún er nú hluti af 17 manna teymi sem hefur það verkefni að skrifa 9. kafla næstu loftlagsskýrslu milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC), (assessment report 6, AR6). Kaflinn hefur titilinn "Ocean, cryosphere, and sea level change" og þar sitja því haffræðingar, jökla-, hafís-, snjó- og sífrerafræðingar, ásamt sjávarstöðurannsakendum saman, en í fyrri skýrslum hefur verið sér kafli um hvert efnanna.
Áætlað er að skýrslan komi út í apríl 2021 og því er enn langur tími í útgáfu, en tvær opnar ritrýningar verða á skýrslunni, fyrsta uppkast verður opnað 29. apríl-23. júní 2019 og geta allir tekið þátt í að rýna skýrsluna og gera athugasemdir en síðan ritrýna stjórnvöld og fleiri sérfræðingar annað uppkast á tímabilinu 2. mars-26. apríl 2020 og að lokum fer loka rýning og samþykki skýrslunnar fram 12.-18. apríl 2021.