Marta Einarsdóttir og Sæunn Gísladóttir, sérfræðingar hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, sóttu dagana 13. til 17. nóvember námskeiðið Secure EU funding: access EU funds sem haldið var á vegum ShipCon í Limassol á Kýpur.
Námskeiðið er ætlað fyrir öll sem koma að undirbúningi umsókna fyrir styrki í helstu áætlanir Evrópusambandsins (ESB). Aðalmarkmið námskeiðsins voru meðal annars að:
Námskeiðið var í boði í svokölluðu Erasmus+ mobility og var kennt af Dr. Efstratios Georgoudis, sérfræðingi í fjármögnun á vegum ESB sem hefur starfað í geiranum í tvo áratugi.
Marta og Sæunn nýttu sér beina flugið með EasyJet frá Akureyri til London og flugu svo áfram til Kýpur frá London Gatwick, en ljóst er að mikil samgöngubót og stytting ferðatíma felst í að komast erlendis beint frá Akureyri.
Dvölin á Kýpur var afar lærdómsrík en ásamt Mörtu og Sæunni sátu níu aðrir námskeiðið frá fjölmörgum Evrópulöndum: Slóvakíu, Austurríki, Ítalíu, Möltu, Lettlandi og Finnlandi. Því gafst einnig tækifæri til að mynda tengsl við sérfræðinga í öðrum löndum sem möguleiki er á að vinna með síðar meir. Mörg höfðu jafnframt áhuga á að heimsækja Háskólann á Akureyri.
Farið var í skoðunarferð á vegum ShipCon á þriðjudeginum og fjallaþorp heimsótt, en á Kýpur er mjög fjölbreytt landslag og hægt að fara á skíði á veturna í fjöllunum þrátt fyrir að ágætis hiti sé á sama tíma við strandlengjuna. Einnig var farið í vínsmökkun en Kýpverjar eigna sér elsta vín heims sem hafist var handa við að brugga fyrir 5500 árum síðan!
Einnig gafst tími til að keyra um eyjuna og kynnast menningu Kýpur sem tengist afar mörgum löndum, má þar nefna Grikkland, Tyrkland og Líbanon. Marta og Sæunn eru sammála um að um mjög vel heppnað námskeið og námsferð var að ræða og mæla með að starfsmenn háskólans nýti sér tækifærið að sækja námskeið í gegnum Erasmus+ mobility til að sækja sér aukna þekkingu og mynda tengsl við aðra skóla.