Vegagerðin hefur 18 jarðgöng utan höfuðborgarsvæðisins til skoðunar. RHA tók að sér að skoða nánar þessa 18 jarðgangakosti og bera kerfisbundið saman með tilliti til arðsemi, umferðaröryggis, tengingar svæða og byggðaþróunar. Einnig voru skoðaðar mismunandi útfærslur nokkra ganga. Með þessari nálgun var unnt að bera saman margar jarðgangahugmyndir úr frá fjórum víddum. Athyglisvert er að enginn jarðgangakostanna sem metnir voru sýndu mikla arðsemi og líklega hafa arðbærustu jarðgangakostir á landinu þegar orðið að veruleika. Margir jarðgangakostir leysa af hólmi hættulega vegi eða sneiða hjá náttúruvá á borð við snjóflóð, grjóthrun eða jarðsig. Þá eru mörg dæmi um að jarðgöng geti leyst af hólmi vegi þar sem vetrarlokanir eru tíðar og í nokkrum tilvikum uppfylla eldri jarðgöng ekki eða varla kröfur dagsins í dag. Tækifæri til þróunar byggðar, samkvæmt opinberum marmiðum, geta skapast víða með gerð jarðganga. Má þar nefna eflingu atvinnulífs, aðgengi að þjónustu og atvinnu og eflingu byggðakjarna og athafnasvæða þeirra.
Jarðgangakostirnir eru ólíkir, staðhættir fjölbreyttir og þau vandamál sem jarðgöngum er ætlað að koma til móts við eru ólík. Það er von RHA að þessi vinna geti nýst við áframhaldandi stefnumótun um jarðgangagerð á landinu sem verður mikil áskorun fyrir stjórnvöld. Ljóst er að forsendur sem lagðar eru til grundvallar í mati á borð við þetta geta bæði breyst hratt s.s. vegna efnahagslegra aðstæðna og líka smám saman s.s. vegna samfélagsþróunar og hnattrænnar hlýnunar.
Skýrsluna má nálgast hér.