Á Þjóðarspegli 2015 kynntu Dr. Marta Einarsdóttir sérfræðingur hjá RHA og Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri fyrstu niðurstöður úr rannsókn sinni um ,,íslensku ofurfjölskylduna“.
Rannsóknin er byggð á sex rýnihópaviðtölum, við þrjá hópa kvenna og þrjá hópa karla, þar sem rætt var um hvernig fjölskyldufólki í vinnu og með barn/börn á aldrinum 0-16 ára gengi að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Það kom í ljós að bæði karlar og konur fundu fyrir töluverðri streitu og álagi í daglegu lífi og töluðu um þessa samræmingu vinnu og fjölskyldu sem mikið ,,púsl“. Á meðal þeirra þátta sem rætt var um sem álagsvalda voru heimilisstörf, tómstundir barna, frí í leikskólum og samskipti við skóla. Sveigjanlegur vinnutími og hlutastarf kvenna voru oftast nefnd sem þættir sem auðvelduðu fólki ,,púslið“. Talað var um að vinnudagurinn á Íslandi væri of langur og að þótt fólk vildi minnka starfshlutfall tímabundið væri það oft ekki mögulegt, vegna fjárhagsstöðu eða afstöðu vinnuveitanda.
Nánari umfjöllun um rannsóknina má sjá í umfjöllun um erindið á Þjóðarspegli á http://www.visir.is/styttri-vinnuvika-fjarlaegur-draumur-islensku-ofurfjolskyldunnar/article/2015151109901 og í viðtali við Mörtu og Andreu í síðdegisútvarpi Rásar 2, sem hefst á mínútu 53:45 http://www.ruv.is/node/953790