„Það skemmtilegasta sem fólk gerir er að stunda kynlíf, svo koma upplifanir eins og leikhús og samvera með öðru fólki“ sagði Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá RHA og doktor í félagssálfræði í pallborði um neytendavörur sem fór fram á opnum fundi í Iðnó þann 17. september milli 9-12. Þar vitnaði hún í rannsókn eftir Bryson og MacKerron þar sem þeir söfnuðu 3 milljónum svara við því hvort fólk væri hamingjusamt þessa stundina og hvað það hefði verið að gera. Byggt á svörunum röðuðu þeir 40 athöfnum í ánægju röð, og þar tróndi kynlíf á toppnum sem ánægjulegasta athöfnin en um miðbik listans var verslunarleiðangurinn, eða í 19 sæti, og telst því hvorki til ánægjulegustu athafnanna né þeirra leiðinlegustu.
Þrátt fyrir þessar skýru niðurstöður um hvað veitir okkur mesta ánægju, þá sýna gögn um hegðun okkar að fólk er að jafnaði að stunda minna kynlíf nú en áður og ýmsir mælikvarðar á einkaneyslu, svo sem ruslakíló per mann, sýna að einkaneysla á Íslandi er með því mesta sem gerist í Evrópu og í heiminum. Til dæmis sýna tölur Eurostat að árið 2022 voru sorp á mann á Íslandi 659 kíló, sem er 146 kílóum yfir Evrópu meðaltalinu, eða um einu píanói meira af rusli á mann.
En hver er skýringin á þessu? Af hverju veljum við að eyða tíma okkar og peningum í hluti sem gefa okkur ekki ánægju. Vissulega þurfum við flest að vinna, og versla í matinn, alveg óháð því hversu skemmtilegt okkur finnst það. En ef við eigum 10.000 krónur, af hverju eyðum við því alltof oft í nýjan kjól í staðinn fyrir leikhúsferð?
Gró telur að skýringuna sé að finna í því að við manneskjur erum góð í að spá fyrir um framtíða tilfinningar okkar, hvaða athafnir munu láta okkur líða vel og illa, en spádómsgáfan bregst okkar þegar kemur að því að spá fyrir um hversu lengi sú tilfinning mun vara. Góða tilfinningin sem einkaneysla hefur í för með sér endist mjög stutt, og er raunar talin í mínútum og sekúndum fremur heldur en í þeim klukkustundum sem það tók að vinna fyrir neyslunni. Góða tilfinningin sem við fáum frá upplifunum, hvort sem við borgum fyrir þær eða ekki, endast mun lengur. Að færa hegðun okkar yfir til þess sem færir okkur ánægju til langs tíma getur haft bæði jákvæðar afleiðingar fyrir geðheilsu okkar, en líka dregið úr neikvæðu umhverfisspori neyslunnar.
Í pallborðsumræðum sem Björn Steinar Blumenstein, vöruhönnuður og eigandi Studio Plastplan, stýrði voru einnig ræddar aðgerðir sem tengdust fræðsluátökum um úrgangsforvarnir og hringrásarhagkerfið, nauðsyn þess að fyrirtæki framleiði færri hluti af meiri gæðum, og að hagrænir hvatar séu nýttir til að ýta undir deilihagkerfið. Í pallborðinu komu saman fjölbreyttir sérfræðingar til að ræða þessi málefni. Ásamt Gró í pallborðinu voru Brynja Dan, frumkvöðull og bæjarfulltrúi, sem rekur Extraloppuna og vefsíðuna 1111.is, Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís, og Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdarstjóri Elko. Þessi hópur fagfólks deildi innsýn og reynslu sem varðar neytendamarkaðinn og hringrásarhagkerfið.
Frá pallborðinu. Mynd/Gunnar Sverrisson
Pallborðið var liður í viðburðinum „Aðgerðaáætlun verður til“ sem snýr að endurskoðun stefnu íslenskra stjórnvalda í úrgangsforvörnum, sem ber nafnið Saman gegn sóun. Starfsmenn Umhverfisstofnunnar hafa á vordögum ferðast um landið og hitt fulltrúa almennings, sveitarfélaga og fyrirtækja til þess að safna hugmyndum í banka um aðgerðir til að draga úr sóun. Pallborðið var lokaviðburður þessarar stefnumótunnarvinnu og markmiðið var að velja úr bestu hugmyndirnar, móta þær betur og forgangsraða þeim.
Hægt er að lesa meira um viðburðinn og úrgangsforvarnir á Saman gegn sóun.