Hvaða tækifæri og áskoranir fylgja óstaðbundnum störfum?

Miðvikudaginn 30. október hélt Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri erindi hjá Fræðafélagi Siglufjarðar í Síldarkaffi á Siglufirði um rannsókn RHA á óstaðbundnum störfum.

Sæunn fór yfir helstu niðurstöður skýrslunnar „Ef þú vilt búa úti á landi þá þarft þú að geta haft þetta val.“ Skýrslan er afrakstur rannsóknar sem styrkt var af Byggðarannsóknasjóði og byggðaáætlun, verkefnisstjóri var Sæunn, en auk hennar unnu Anna Soffía Víkingsdóttir og Rannveig Gústafsdóttir að rannsókninni.

Þá nefndi Sæunn að samkvæmt niðurstöðunum eru óstaðbundin störf komin til að vera. Starfsfólk er heilt yfir farsælt í starfi, upplifir jákvætt viðhorf gagnvart óstaðbundnum störfum og hefur ekki áhyggjur af neikvæðum áhrifum þess að vera óstaðbundið á framtíðaratvinnumöguleika. Þvert á móti telur það reynslu af óstaðbundnum störfum sýna fram á sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð. Að mati einstaklinga í óstaðbundnum störfum er einn allra helsti kostur starfanna að geta unnið starf sem væri ekki í boði staðbundið á svæðinu sem þau búa á. Þá fjölga óstaðbundin störf atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk í landsbyggðum.

Sæunn fjallaði um búsetufrelsi og nefndi í því samhengi að óstaðbundin störf auðvelda fólki að skipta um starf án þess að flytja maka og fjölskyldu milli landshluta vegna starfs, en geta einnig auðveldað fólki sem vill flytja á nýjan stað að taka starfið með sér. Mannauðsstjórar telja einn helsta kost óstaðbundinna starfa vera að geta boðið fólki upp á búsetufrelsi og þannig stutt við betri samræmingu vinnu- og fjölskyldulífs.

Þá kom Sæunn einnig inn á það að mikill áhugi er meðal bæði einstaklinga í óstaðbundnu starfi og mannauðsstjóra fyrir innleiðingu vinnuklasa (fjarvinnslurýma) í sem flestum bæjarfélögum þar sem sporna má gegn félagslegri einangrun óstaðbundins starfsfólks með því að bjóða því upp á vinnurými ásamt öðrum í svipaðri stöðu. Þetta er talið árangursríkara heldur en að einstaklingar fái skrifborð hjá stofnun sem nú þegar hefur aðsetur í bæjarfélaginu til að tryggja jafnræði.

Vel var mætt á viðburðinn og líflegar umræður fóru fram að erindi loknu. Meðal annars var rætt um hvernig Fjallabyggð gæti stutt betur við óstaðbundin störf en vinnuklasinn á Siglufirði, Regus, er nánast orðinn fullur og er þetta orðið vandamál víðar á Norðurlandi eystra. Þá var rætt um aukinn kostnað við óstaðbundin störf og hvort þetta væri tímabundinn kostnaður sem myndi dragast saman til lengri tíma ef höfuðstöðvar gætu minnkað húsnæði sitt á móti. Bornar voru fram spurningar um áhrif af óstaðbundnu starfi á framgang í starfi og velt vöngum yfir tækifærum og takmörkunum óstaðbundinna starfa.