Út er komin greinin:
Samfélagslegt hlutverk háskóla eftir Trausta Þorsteinsson, Sigðurð Kristinsson og Hjördísi
Sigursteinsdóttur og birtist hún í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.
Greinin fjallar um rannsókn á því á hvern hátt starfsmenn íslenskra háskóla skilja hlutverk háskóla og
samfélagslegar starfsskyldur sínar. Það er síðan mátað að fjórum ólíkum hefðum í starfsemi háskóla,
þ.e. Newman, Humboldt, Tómas frá Akvínó og Napoleons hefðinni. Spurningalisti var lagður fyrir alla akademíska starfsmenn og
sérfræðinga við háskóla á Íslandi. Niðurstöður benda sterklega til þess að grunngildi Humboldt háskólans
séu föst í sessi innan íslensks háskólasamfélags.
Íslenskt háskólafólk metur mikils það hlutverk háskóla að vera gagnrýnið afl í samfélaginu og tekur undir hugmyndina
um háskóla sem sjálfstætt griðland fræðanna þar sem akademískt frelsi er grundvallaratriði. Mikill meirihluti telur mikilvægt að
settar verði reglur um kostun á háskólastöðum. Bendir það til að háskólafólk hafi áhyggjur af þeirri
þróun að fjársterk hagsmunaöfl geri sig ómissandi við fjármögnun háskólastarfs með þeim afleiðingum að
rannsakendur, sérfræðingar, kennarar og nemendur hafi ekki fullt frelsi til að leita sannleikans í hverju máli. Gagnrýni kemur fram á starfsumhverfi
íslensks háskólafólks. Þar berast böndin að því kerfi sem notað er til að leggja mat á árangur
háskólakennara og sérfræðinga og grundvallar ákvarðanir um laun þeirra og framgang í starfi. Matskerfið er beintengt við hag og
kjör starfsmanna og því mjög stýrandi. Notkun þess kann að hafa misfarist að því leyti að þeir hvatar sem tækið býr
til virðast á skjön við þær faglegu hugsjónir sem háskólafólk aðhyllist að því er varðar
þátttöku þess í samfélagslegri umræðu.
Hér má nálgast greinina í fullri lengd:
Samfélagslegt hlutverk
háskóla