Á dögunum kom út skýrslan A 10-Year Regional Perspective on Electric Aviation en útgáfan er hluti af verkefninu Electric Aviation and the Effects on Nordic Regions. Nordregio leiðir verkefnið, en RHA annast íslenska hluta rannsóknarinnar. Sæunn Gísladóttir og Hjalti Jóhannesson taka þátt í rannsókninni fyrir hönd RHA.
Í þessari ítarlegu skýrslu eru framtíðarsviðsmyndir um rafmagnsflug skoðaðar á Norðurlöndunum fimm. Skoðað er eitt tilfelli eða „case study“ fyrir hvert land og í því eru meðal annars könnuð áhrif rafmagnsflugs, kostir og gallar og sérstaklega er einblínt á möguleika rafmagnsflugs á að tengja betur þéttbýli og dreifbýli.
Í íslenska hluta útgáfunnar er skoðaður möguleikinn á innleiðingu rafmagnsflugs á flugleiðinni Akureyri-Reykjavík. Í tengslum við það var haldinn rýnihópsfundur þann 14. september síðastliðinn á Akureyrarflugvelli. Rýnihópurinn innihélt sérfræðinga sem eiga hagsmuni af flugleiðinni. Icelandair, sem um þessar mundir er eina flugfélagið sem heldur uppi áætlunarflugi á þessari flugleið, hefur fjárfest í Heart Aerospace sem er að þróa rafmagnsflugvélar með það markmið að innleiða tengitvinnvélar í innanlandsflugi fyrir árið 2028.
Í skýrslunni er meðal annars farið yfir pólitísk, efnahagsleg og umhverfisleg áhrif af innleiðingu rafmagnsflugs á Norðurlöndunum næsta áratuginn. Ýmsum mögulegum áhrifum er velt upp, til dæmis gæti innleiðing rafmagnsflugs á Íslandi leitt til lækkunar á kostnaði á innanlandsflugi og einnig aukið tíðni flugferða þar sem vélarnar sem notaður væru til þess verða líklega minni en þær sem eru í núverandi flota á leiðinni. Einnig gæti rafmagnsflug opnað á möguleikann á nýjum flugleiðum, til dæmis milli áætlunarstaða utan Reykjavíkur en ekki bara frá tilteknum áætlunarstöðum til Reykjavíkur eins og flestar leiðir eru um þessar mundir.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.
Hér má svo lesa fyrri skýrslur í rannsókninni.