Fólksfækkun í hallæri, gæfuspor eða skref til glötunar?

Mikið hefur verið fjallað um fólksfækkun í landinu undanfarið af fjölmiðlum.  Mest á þeim nótum að það sé þróun sem beri að hræðast, geti haft skelfilegar afleiðingar.  Skrattinn hefur verið málaður á vegginn.  En er ástæða til að vera skelfingu lostinn þó íbúum landsins fækki?  Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifaði nýlega grein í Fréttablaðið.  Þar veltir hann áhrifunum fyrir sér fyrir sér út frá hagfræðilegu sjónarmiði með því að beina sjónum að áhrifum fólksfækkunar á innflutning og útflutning.

 

Fólsfækkun í hallæri, gæfuspor eða skref til glötunar?

Geta lands til að standa undir greiðslum til annarra landa, afborgunum af lánum, skaðabótum eða einhverju slíku, ræðst fyrst og fremst af því hversu mikið landið getur flutt út af vörum og þjónustu umfram það sem flutt er inn.  Í sinni einföldustu mynd má líta á landið sem svartan kassa og horfa eingöngu á hversu mikið fer inn í kassann af verðmætum og hversu mikið kemur út úr kassanum af verðmætum.  Ef meira kemur út af verðmætum en fer inn er um viðskiptaafgang að ræða sem landið getur notað til þess að greiða öðrum.  Ef það er ríkið sem þarf að greiða til erlendra aðila þarf ríkið að búa sér til kerfi til að ná til sín þessum viðskiptaafgangi frá einstaklingunum.  Það er gert með sköttum.  En hvað gerist nú ef fólkinu inni í kassanum fækkar, í þessu tilfelli ef fólkinu á Íslandi fækkar?  Til þess að svara spurningunni þurfum við fyrst að gera okkur grein fyrir hvaða verðmæti þetta eru sem fara til og frá landinu. 

 

Hvaða áhrif hefur fólksfækkun á útflutning?

Hver er útflutningurinn frá Íslandi?  Fyrst má telja sjávarafurðir, verður minni fiskur veiddur ef fólki fækkar á Íslandi?  Nei.  Verður minna af áli framleitt ef fólki fækkar?  Nei.  Munu færri ferðamenn koma til landsins vegna þess að þar búa 300 þús. manns en ekki 320 þús?  Nei.  Hvað þá með almennan útflutning á hinu og þessu svo sem í þekkingargeiranum?  Munu fyrirtæki eins og Össur, Marel og CCP draga úr útflutningi sínum ef fólki fækkar?  Það er vandséð að svo verði.  Þessi fyrirtæki ættu að get boðið starfsmönnum sínum ágæt laun þar sem þau fá tekjur í erlendri mynt.  Það góð að starfsmennirnir fari ekki eða auðvelt sé að fá góða starfsmenn í þeirra stað.  Almennt er líklegt að útflutningur fyrirtækja - sem áður voru að íhuga að flýja landið vegna of sterkrar krónu - minnki ekki þegar krónan er orðin lág og allur innlendur kostnaður hefur lækkað um helming í alþjóðlegu samhengi.  Jafnvel þó gjaldmiðilsvandamálið hafi ekki verið leyst.  Þetta á einnig við um þau fyrirtæki íslensk sem eru í samkeppni við útflutning.  Það er því vandséð að fólksfækkun hafi veruleg áhrif á útflutning, streymi verðmæta út úr kassanum ætti að vera svipað og áður.

Hvaða áhrif hefur fólksfækkun á innflutning?

Hluti af innflutningnum er hráefni og stoðvörur fyrir atvinnulífið svo sem súrál fyrir álverin og olía fyrir sjávarútveginn.  Sá innflutningur mun ekki minnka þó fólki fækki.  Að öðru leyti er innflutningurinn almennar vörur til daglegs lífs.  Matvæli, fatnaður, bensín á heimilisbílinn, lyf og svo mætti lengi telja.  Mun þessi innflutningur minnka ef fólki fækkar?  Já.  Mikið af innflutningnum er í beinu sambandi við fjölda íbúa á landinu.  Það er því líklegt að fólksfækkun verði til þess að minna verði flutt inn til landsins af almennum vörum en ella.

Eykst eða minnkar viðskiptaafgangur með fólksfækkun?

Fljótt á litið er því líklegt að fólksfækkun verði til þess að straumur verðmæta til landsins minnki en straumur verðmæta frá landinu verði svipaður.  Með öðrum orðum að útflutningur umfram innflutning aukist.  Ef horft er á fólksfækkun frá þessum sjónarhóli er ekki líklegt að hún minnki möguleika landsins á því að ná sér út úr erfiðleikunum.  Það geti beinlínis verið þveröfugt, fólksfækkun hjálpi landinu til að ná sér aftur á strik vegna þess að viðskiptaafgangur (útflutningur umfram innflutning) eykst.

Þetta má ekki skilja sem hvatningu til fólks að koma sér í burtu, málið er flóknara en svo.  Fólksfækkun getur t.d. haft þau slæmu áhrif að hæft fólk í þjónustustéttum svo sem í heilbrigðiskerfi og menntastofnunum hverfi á braut og geri það að verkum að þjónustan við íbúa landsins versni.  Á móti kemur að fólk sem flytur til útlanda er ekki horfið okkur að eilífu.  Þetta fólk er okkur auðlind á margan hátt.  Stór hluti fólksins sem fer í hallæri snýr til baka þegar ástandið batnar, í mörgum tilfellum með meira fjármagn með sér en það fór með frá landinu.  Í öllu falli er ekki ástæða til að mála skrattann á vegginn þó fólki fækki á Íslandi næstu misserin.  Ég hef að minnsta kosti ekki áhyggjur af því.

 

 

Akureyri 8. september 2009

Höfundur er sérfræðingur á RHA og lektor við HA