Þetta kemur fram í nýlegri spurningakönnun RHA sem náði til 1000 íbúa á Akureyri en 664 svöruðu könnuninni. Spurt var hvort væri mikilvægara að hækka laun eða stytta vinnuvikuna. Athyglisvert er að fleiri telja mikilvægara að stytta vinnuvikuna eða tæp 38% en tæp 28% telja mikilvægara að hækka laun. Ríflega þriðjungur töldu hvort tveggja vera jafn mikilvægt. Þegar þetta var skoðað eftir kyni koma í ljós marktækur kynjamunur en konur töldu meiri þörf á að stytta vinnuvikuna en karla töldu mikilvægara að hækka laun.
Þessar niðurstöður ríma ágætlega við niðurstöður úr verkefni sem að RHA vinnur um þessar mundir fyrir Reykjavíkurborg og BSRB um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar, en tilraunaverkefni hefur staðið yfir um hríð á nokkrum vinnustöðum og gefið góða raun. Ýmsar úttektir hafa verið gerðar á afmörkuðum sviðum varðandi verkefnið en RHA er fyrst og fremst ætlað að skoða áhrifin á samspil vinnu og einkalífs og jafnrétti kynjanna. Af því tilefni unnu tveir hópar BA nema lokaverkefni sín um tilraunaverkefnið og tóku rýnihópaviðtöl, annars vegar við starfsfólk Reykjavíkurborgar og hins vegar við félagsmenn BSRB innan tiltekinna ríkisstofnanna. RHA skilar svo skýrslu í lok júní sem byggir á gagnaöflun úr lokaverkefnunum en þau verða gerð aðgengileg á Skemmunni 1. júlí næstkomandi.