RHA hefur unnið mat á samfélagslegum áhrifum Kvíslatunguvirkjunar í Strandabyggð fyrir Orkubú Vestfjarða. Áformuð virkjun er 9,9 MW að afli og fellur þess vegna ekki undir málsmeðferð á vettvangi rammaáætlunar. Fyrir liggur matsskýrsla sem Verkís vann og bíður hún þess núna að Skipulagsstofnun birti álit um hana .
Sveitarfélagið Strandabyggð hefur háð varnarbaráttu undanfarna áratugi og er meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir til að snúa vörn í sókn. Í rannsókn RHA er talið líklegt að jákvæð áhrif verði á samfélagið á svæðinu með auknu raforkuöryggi og bætts aðgengis að raforku. Slíkt geti til lengri tíma litið skapað forsendur fyrir uppbyggingu atvinnulífs í byggðalaginu. Til skamms tíma verði aukin umsvif vegna framkvæmda við byggingu virkjunarinnar.
Talsverður fjöldi útivistarfólks heimsækir hluta framkvæmdasvæðisins árlega og skipulagðir viðburðir sem eru þar, hafa talsvert aðdráttarafl, svo sem í tengslum við skíðagöngu og utanvegahlaup. Heiðarlönd í nágrenni framkvæmdasvæðisins eru hins vegar fáfarin og metið að gildi fyrir mikilvægi svæðisins fyrir útivist sé miðlungs. Tiltölulega fáir ferðamenn heimsækja svæðið.
Samkvæmt spurningakönnun sem RHA gerði í tengslum við matið telur yfirgnæfandi meirihluti (78%) að áhrif virkjunarinnar á útivist verði engin eða jákvæð og í tilviki ferðaþjónustu telja 82,6% að áhrif verði engin eða jákvæð.
Heildarniðurstaðan er að Kvíslatunguvirkjun hafi talsvert jákvæð áhrif á samfélag, ferðaþjónustu og útivist til lengri tíma litið. Rannsóknina unnu Marta Einarsdóttir, Helga Einarsdóttir og Hjalti Jóhannesson.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.