RHA lauk nýlegaverkefni fyrir Breiðdalshrepp og kallast lokaskýrslan Breiðdalshreppur - Samfélagsgreining og sameiningarkostir. Hjalti Jóhannesson, landfræðingur og Arnar Þór Jóhannesson, stjórnmálafræðingur unnu að verkefninu. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru eftirfarandi:
- Rekstur Breiðdalshrepps hefur verið þungur um langt skeið þrátt fyrir góða afkomu að undanförnu. Helgast þessi góða afkoma fyrst og fremst af miklu aðhaldi í rekstri hreppsins og auknum framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hlutfall skulda af tekjum sveitarfélagsins er 141% í árslok 2016 sem er mikil breyting til batnaðar en árið 2014 var skuldahlutfallið 199%. Samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga (nr. 502/2012) skal skuldahlutfallið ekki vera hærra en 150%.
- Breiðdalshreppur er lítil og óhagstæð rekstrareining sem leiðir af sér brothætta stjórnsýslu. Sveitarfélögum á Íslandi hefur fækkað mikið undanfarna áratugi og verkefnum þeirra hefur fjölgað sem kallar á mun meiri stjórnsýslu og umsvif en áður með tilheyrandi kostnaði.
- Fólksfækkun hefur verið viðvarandi í Breiðdalshreppi síðustu áratugina sem má fyrst og fremst rekja til ótryggs atvinnuástands. Íbúum hefur fækkað úr 372 í 182 frá því þegar þeir voru flestir, árið 1980. Til þess að sporna gegn þessari þróun var verkefninu Breiðdælingar móta framtíðina komið á laggirnar undir formerkjum Brothættra byggða. Ekki er komin nægilega löng reynsla á verkefnið til þess að meta langtímaárangur af því.
- Íbúasamsetningin í sveitarfélaginu er þannig að hlutfallslega er meira af körlum en konum og eldra fólki en ungu.
- Ágæt gróska og nýsköpun á sér stað í sveitarfélaginu en atvinnulífið stendur samt óstyrkum fótum. Vægi landbúnaðar og sjávarútvegs hefur minnkað en ferðaþjónustu aukist.
- Erfitt gæti orðið að fá íbúa til þess að gefa kost á sér í sveitarstjórn og nefndir hreppsins í framtíðinni. Merkjandi er minni pólitísk þátttaka en áður þar sem framboðslistum hefur fækkað og kjörsókn minnkað.
- Ýmsir innviðir í Breiðdalshreppi þarfnast viðhalds og endurbóta, svo sem götur, fráveita, skóli og leiguíbúðir sem hreppurinn á.
- Viðræður um sameiningu sveitarfélaga eru rökrétt næsta skref. Af landfræðilegum ástæðum er sameining við Fjarðabyggð besti kosturinn með samlegð í huga. Þó er sameining við Fljótsdalshérað ekki útilokuð en Breiðdalsheiði er verulegur farartálmi á veturna. Í slíkum tilfellum lægi leiðin milli byggðakjarnanna í gegnum annað sveitarfélag.
- Sameining skólanna á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði er skynsamleg ráðstöfun, bæði fjárhagslega og faglega. Gert væri ráð fyrir skólahaldi í báðum skólunum eftir sem áður.