Þetta eru niðurstöður úr könnun RHA sem gerð var meðal íbúa á Akureyri dagana 7. til 25. mars sl. Þar sem var spurt um nafn á sveitarfélaginu. Spurningin var svohljóðandi: Núverandi nafn sveitarfélagsins er Akureyrarkaupstaður, hvort vilt þú halda því nafni eða breyta því í Akureyrarbær?
Niðurstöðurnar voru nokkuð afgerandi en 77% þeirra sem tóku afstöðu vildu breyta nafninu í Akureyrarbær en 23% vildu halda nafninu Akureyrarkaupstaður. Fleiri körlum en konum hugnaðist að halda í gamla nafnið eða 26.2% karla en aðeins 20% kvenna. Þá naut kaupstaðarnafnið meiri vinsælda hjá elsta aldurshópnum en öðrum. Í póstnúmerinu 600 vildu 21,1% halda í gamla nafnið en 78,9% vildu breyta því en í póstnúmeri 603 voru það 25,1% sem vildu halda nafni sveitarfélagsins óbreyttu en 74,9% breyta.
Af 655 sem svöruðu spurningunni tóku 514 manns afstöðu milli kostanna tveggja en 141 hafði ekki myndað sér skoðun.
Svarendur voru jafnframt spurðir hvort það væri eitthvert annað nafn sem þeim hugnaðist betur en þessi tvö og þar nefndu 54 Akureyri og 8 Akureyrarborg en fimm aðrir kostir fengu eitt atkvæði. Rétt er þó að geta þess að örnefnanefnd hefur mælst til þess að sveitarfélög beri endinguna hreppur, byggð, bær eða borg en vissulega gæti nafnið verið Sveitarfélagið Akureyri, sbr Sveitarfélagið Skagafjörður.
Forsaga þessa máls er sú að í janúarmánuði samþykkti bæjarráð Akureyrar að nafni sveitarfélagsins yrði breytt úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ og vísaði því til bæjarstjórnar til umræðu og afgreiðslu. Um er að ræða stjórnsýsluheiti á sameiginlegan opinberan rekstur á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Eftir þær umræður í bæjarstjórn var ákveðið að fram færi skoðanakönnun meðal bæjarbúa um heitið og komi þar fram afdráttarlaus vilji bæjarbúa verði tekið mið af honum.
Í ljósi þessa má því gera ráð fyrir að bæjarbúar muni á næstu misserum ekki lengur búa í kaupstað heldur bæ.