Um 60% bæjarbúa á Akureyri telja að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur yfir sumarmánuðina

Þetta kemur fram í nýlegri spurningakönnun RHA sem náði til 1000 íbúa á Akureyri. Spurt var  hvað fólki fyndist um fjölda ferðamanna í sinni heimabyggð. Um 60% íbúa telja að þeir séu hæfilega margir frá júní og fram í október, tæplega 26% finnst þeir vera of margir en 14% finnst þeir vera of fáir. Heilt yfir þykir bæjarbúum hæfilega margir ferðamenn í sinni heimabyggð allt árið í kring. Yfir vetrarmánuðina finnst ríflega 48% bæjarbúa of fáir ferðamenn vera í bænum en tæplega 48% telja fjöldann vera hæfilegan.

Bæjarbúar voru einnig spurðir í könnuninni hvernig þeir meta efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustu fyrir bæinn. Þar kemur í ljós að um 80% bæjarbúa telja ferðaþjónustu mikilvæga en þó telja aðeins 14% hana vera undirstöðu atvinnuveg. Fimm og hálf prósent telja efnahaglegt mikilvægi ferðaþjónustu lítið eða ekkert.  

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 23. apríl til 4. maí. Haft var samband í gegnum tölvupóst og fengust 663 svör. Svarhlutfallið var 62%.

Niðurstöðurnar ríma ágætlega við könnun sem RMF gaf út árið 2018 þar sem RHA annaðist gagnaöflun en þar kom einnig fram að 60% íslendinga töldu fjölda ferðamanna í sinni heimabyggð vera hæfilegan. Á Norðurlandi voru 67% á þeirri skoðun en tæp 24% töldu ferðamenn vera of marga yfir sumartímann. Skýrslu RMF um Viðhorf íbúa á Norðurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu má nálgast hér http://www.rmf.is/static/research/files/nordurlandpdf