Dagana 16.-18. október var haldin í Glasgow lokaráðstefna KITCASP-verkefnisins (Key Indicators for Evidence-based Spatial Planning) en í verkefninu var unnið að þróun og vali 20 vísa (indicators) til að nota við skipulagsvinnu í ríkjum Evrópu. Verkefnið var unnið í nánum tengslum við hagsmunaaðila í þeim fimm löndum sem aðild áttu að rannsókninni, en það voru Baskaland, Írland, Ísland, Lettland og Skotland. Írar í byggðarannsóknastöðinni (National Institute for Regional and Spatial Analysis) í Maynooth fóru með verkefnisstjórn en Graeme Purvis hjá skosku ríkisstjórninni fór fyrir hagsmunaaðilum. Fyrir hönd hagsmunaaðila á Íslandi tók Skipulagsstofnun virkan þátt í verkefninu og var Landsskipulagsstefna 2013-2024 sú áætlun sem var einkum lögð til grundvallar í íslenska hluta rannsóknarinnar en einnig var litið til byggðaáætlunar og Ísland 2020. Lokaskýrsla KITCASP er væntanleg innan tíðar.