Kínverska-norræna norðurslóðaráðstefnan afstaðin

Dagana 2. - 4. júní fór fram önnur kínverska-norræna norðurslóðaráðstefnan (e. 2nd China-Nordic Arctic Cooperation Symposium). Ráðstefnan var haldin í hátíðarsal Háskólans á Akureyri og bar heitið: Þar sem norður og austur mætast (e. North meets East). Á ráðstefnunni fjölluðu tæplega 40 vísindamenn frá Kína og Norðurlöndunum m.a. um stjórnarfar á norðurslóðum, alþjóðavæðingu, efnahagslíf og svæðisbundin áhrif auk þeirrar samvinnu sem tengist hafinu. Í tengslum við ráðstefnuna var tekin skóflustunga að nýju rannsóknarhúsi norðurljósa við Kárhól í Reykjadal að kvöldi fyrsta dags ráðstefnunnar, en fyrirlestrar hófust að morgni 3. júní. 

China_Nordic

Hallgrímur Jónasson, framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar Íslands bauð ráðstefnugesti velkomna og að því loknu flutti forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, opnunarávarp. Auk forsetans fluttu ávörp þau Chen Laiping sendiráðunautur kínverska ráðuneytisins, Anton V. Vasilien, sendiherra Rússlands á Íslandi og Marit Lillealtern, sendiráðsritari við norska ráðuneytið.

Í ávarpi sínu lagði forsetinn áherslu á mikilvægi rannsókna og vísinda í norðurslóðasamvinnu og að með samstilltu átaki vísindasamfélagsins mætti yfirstíga hindranir sem liggja í efnahagslegu og pólitísku landslagi. Þannig væri ráðstefna sem þessi, ekki einungis mikilvæg vegna þeirra umfjöllunarefna sem á dagskrá væru, heldur ekki síst, til að senda skýr skilaboð til þeirra sem huga að norðurslóðasamstarfi. Hann sagði einnig að þau lönd sem áhuga hafa á norðurslóðum og sækjast eftir samstarfi ættu að spyrja sig spurninga um hvert framlag þeirra til vísindastarfa væru og hvernig þau vilja taka þátt í þekkingaröflun og þekkingarmiðlun. Ástæðan fyrir samstarfi ætti ekki að byggja í efnahagslegum eða pólitískum grundvelli heldur vísindasamstarfi.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar voru Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS), Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) og China-Nordic Arctic Research Center (CNARC). Ráðstefnan þótti takast með ágætum og voru erindi og umræður tekin upp og stefnt að því að gera sem flest erindin og umræður aðgengileg á vef Norðurslóðanets Íslands innan tíðar.