Dans- og söngvar frá Rúmeníu og Ungverjalandi á Akureyri

Frá sýningu í Ketilhúsinu
Frá sýningu í Ketilhúsinu

RHA, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri í samvinnu við ÞjóðList ehf. vinnur að verkefni er varðar menningarerfðir með tveimur rúmenskum samstarfsaðilum, samtökum fyrirtækja í ferðamálum (National Association for Rural, Cultural and Ecological Tourism Maramureş) ogVasile Goldis háskólanum (Western University "Vasile Goldiş" Arad, Baia Mare Branch).

 

Verkefnið ber heitið Maramures  - fjársjóður í menningararfi Evrópu (Maramureş a”living treasure”in the European cultural heritage) og er styrkt af Uppbyggingarsjóði EES 2009-2014, deild PA17/RO13 (EEA grants).

Maramures er landsvæði í norð-vestur Rúmeníu, með landamæri að Úkraínu til norðurs og Ungverjalandi til vesturs. Þarna lifa í sátt og samlyndi, Rúmenar, Ungverjar, Úkraínar, Þjóðverjar, Sígaunar og Gyðingar. Hver þjóðflokkur heldur í sínar hefðir, tónlist, dans, klæðnað og hátíðir þannig að Maramures iðar af fjölbreyttu mannlífi allt árið um kring.

Markmið verkefnisins er að varðveita menningararf svæðisins og taka saman upplýsingar um menningu Rúmena og Íslendinga á sviði þjóðtónlistar, handverks og þjóðdansa. Gerð verður upplýsingagátt, gefnir út mynddiskar og prentaðir bæklingar. Mikilvægur þáttur í verkefninu er miðlun upplýsinga frá einni kynslóð til annarar og frá einni þjóð, eða þjóðarbroti til annars. Liður í því var heimsókn 17 dansara, söngvara og verkefnisstjóra frá Maramures til að taka þátt í Akureyrarvöku í lok ágúst.

Á Akureyrarvöku laugardaginn 28. og 29. ágúst  sýndu 11 listamenn frá þessu einstaka fjölmenningarsvæði Maramures dansa og sungu fyrir Akureyringa og gesti. Listafólkið bauð upp á tónlist og dans Rúmena, Sígauna og Ungverja og gáfu okkur innsýn inn í dans- og tónlistarmenningu þeirra sem þeir kappkosta að varðveita. Það var söngatriði á opnunarhátíðinni í Lystigarðinum föstudaginn 29. ágúst, dans á ráðhústorgi kl. 14 þann 29. ágúst og klukkustundar þjóðdansasýning í Ketilhúsinu kl. 17:30 sama dag. Sýningarnar vöktu verðskuldaða athygli gesta.

Verkefnisstjórar eru þær nöfnur Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir frá RHA og Guðrún Ingimundardóttir frá ÞjóðList.